Hlutirnir gerast hratt í körfuknattleik og jafnan á þessum árstíma er mikið undir. Þannig var einmitt mál með vexti á lokasekúndum fjórðu viðureignar KR og Snæfells í Domino´s deild kvenna um síðustu helgi. KR átti þá tvö vítaskot og leiddu með einu stigi þegar 2,7 sekúndur voru til leiksloka.
Sigrún Sjöfn Ámundadóttir hélt á vítalínuna fyrir KR, brenndi af fyrra skotinu og líka því síðara, Snæfell náði frákastinu og tók erfitt skot frá miðju um leið og leiktíminn rann út. KR tók fyrir vikið sæti í úrslitum Domino´s deildarinnar með 3-1 sigri í einvíginu.
Það sem gerðist í síðara vítaskotinu hjá KR var nokkuð athyglisvert því boltinn fór ekki í hringinn. Í leikreglum í körfuknattleik stendur m.a. í grein 43.2.3:
* Vítaskotmaður skal:
– Má nota hvaða aðferð sem honum hentar til að skjóta að körfunni, þannig að knötturinn, fari í körfuna ofanfrá eða snertir hringinn.
Af þessu leiðir þar sem boltinn snerti ekki hringinn er um leikbrot að ræða og við þetta leikbrot á andstæðingurinn að fá knöttinn til innkasts, í þessu tilviki við hliðarlínu við framlengda vítalínu.
Snæfell hefði í þessu tilfelli átt að vera dæmdur boltinn og þá hefði liðið væntanlega tekið leikhlé og fengið innkast með 2,7 sekúndur eftir á klukkunni og þá tekið inn boltann á varnarhelmingi KR. Vissulega súrt í broti fyrir Hólmara að þurfa að fallast á að ekki hafi verið tekið eftir því að boltinn hafi ekki snert hringinn en það er jú margt sem gerist í hita leiksins sem fer framhjá leikmönnum, þjálfurum og dómurum.
Á bls 43 er kaflinn um vítaskot.
Knattspyrnan hefur nú verið mikið í umfjöllun í s.b.v. marklínutæknina sem samþykkt hefur verið að nota á nokkrum vettvöngum. Það leiðir óneitanlega að því hugann hvort körfuknattleikur muni í framtíðinni gefa aukið rými til handa dómurum til að ákvarða um hin ýmsu mál t.d. eftir myndbandsupptökum en þær heimildir körfuknattleiksdómara í dag eru ansi takmarkaðar og atvik eins og það að ofan sem rætt er um hafa dómarar ekki heimild til að skoða með upptökubúnaði.



