Lesendur Ruslsins hafa ekki farið varhluta af umfjöllun um úrskurði aga- og úrskurðarnefndar KKÍ undanfarið. Sá vettvangur sem á að tækla vandamál og atburði sem gerast á vellinum, hvort sem dómarar sjá þá eða ekki. Oftast eru þetta atburðir sem verðskulda athygli nefndarinnar en sjaldnar, en þó í sífellt auknu mæli, atburðir sem hefðu aldrei átt að rata til hennar.
Leikaraskapur eða “flopp” eins og það er kallað hefur hafið innreið sína í körfubolta. Vandamál sem er komið til að vera, því miður. Farinn er sá tími þegar menn í mesta lagi létu sig detta til að selja dómaranum ruðning en tóku öðru samstuði eins og menn. Farinn er sá tími þegar menn sýndu andstæðingi sínum enga linkind og treystu ekki á dómara til að sleppa sér úr klemmu. Nú er hafinn tími annars konar strategíu í körfuboltaleik þar sem spilað er inn á athygli dómarans.
Nýverið hlutu tveir leikmenn Þórs Þorlákshöfn eins leiks bann fyrir viðskipti sín við bæði dómara leiksins og leikmenn Keflavíkur, í kjölfar lokasekúndna leiks liðanna í Þorlákshöfn. Ég ætla ekki að fjölyrða um dómgæslu leiksins á lokasekúndunum, eða skorts á henni öllu heldur. Myndbandið segir meira en mörg orð. Bann annars leikmanns Þórs er réttlætanleg því það hafði að gera með ósæmileg samskipti hans við dómara leiksins eftir að flautan gall. Af frásögn vitna hefur hitt bannið verið bendlað við leikaraskap.
Nú hefur því miður ekki verið birt myndband af þessu atviki, en ef satt er þá er það miður. En þetta er sá raunveruleiki sem við búum við í dag.
Viðureign Keflavíkur og Stjörnunnar í úrslitakeppninni í fyrra snérist að mestu leyti um þennan ófögnuð. Leikmenn Stjörnunnar hentu upp slagorðinu “Floppavík” en voru engu skárri sjálfir í þessari stefnu.
Mér finnst það mjög miður þegar hæfileikaríkir körfuboltaleikmenn stunda þessa iðju. Körfubolti gengur út á að skora körfur og hindra það að andstæðingurinn geri hið sama. Reglur körfuboltans eru svo til þess að þessi leikur sé spilaður á heiðarlegan hátt og girða af óæskilega hegðun á meðan á leik stendur. Leikreglurnar eru ekki til að spila með þær og breyskleika dómaranna.
Hvað er til taks? Dómarar eru farnir að gefa leikmönnum viðvaranir vegna leikaraskaps og tæknivillur fyrir ítrekuð atvik. Almenn stefna og viðhorf KKÍ í þessum efnum eru hins vegar ekki nógu skýr. Boð og bönn eru samt sem áður ekki lausnin.
Ábyrgðin er hjá liðinum sjálfum og þá einna helst þjálfurum þeirra. Eftir höfðinu spila útlimirnir og ef leikmenn liðs stunda þessa iðju ítrekað hlýtur það að vera með blessun þjálfarans. Leikmenn haga seglum eftir vindi á meðan á leik stendur og bregðast mögulega við aðstæðum af eðlisávísun. Þjálfararnir bera að mínu mati ábyrgð á gjörðum leikmanna sinna á meðan á leik stendur og ættu því að bregðast við, nema “sigur er sigur, hvernig sem hann vinnst” sé mantran þeirra.
Því biðla ég til þjálfara, og þá sérstaklega þjálfara yngri kynslóðarinnar, að tækla þetta vandamál núna og útrýma leikaraskap í körfubolta. Spilum körfubolta og látum lærða leikara í leikhúsum og á hvíta tjaldinu sjá um leikaraskapinn.
[email protected], ritstjóri Ruslsins.
*** Uppfært kl. 17:43. Greininni breytt vegna ábendinga um ósanngjarna umsögn um einn leikmann. Það var alls ekki markmiðið, heldur að vekja athygli á leikaraskap í körfubolta. ***



