spot_img
HomeFréttirLeika við Ólympíulið Litháa

Leika við Ólympíulið Litháa

11:44
{mosimage}

(Hlynur og félagar í landsliðinu mæta Litháum í júlí) 

Íslenska körfuboltalandslið karla ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur þegar það byrjar undirbúning sinn fyrir Evrópukeppnina í haust. Körfuknattleikssambandið hefur þegið frábært boð frá litháíska sambandinu um að fara í æfingabúðir til Litháens og mæta Ólympíu­liði Litháa í tvígang. Þetta ritar Óskar Ófeigur Jónsson íþróttafréttamaður hjá Fréttablaðinu á www.visir.is í dag.  

Litháar bjóða íslenska liðinu æfingaaðstöðu og umgjörð eins og hún gerist best og mótherjarnir eru eitt af bestu landsliðum í heimi. Íslenska liðið hefur hafið undirbúning sinn en farið verður 11. júlí út til Litháen og dvalið þar til 16. júlí. Leikirnir fara fram 13. júlí í Kaunas og í Vilnius tveimur dögum síðar. 

Litháar hafa ekki farið leynt með það að þeir stefna á gullið í Peking. Þeir unnu bronsið á leikunum 1992, 1996 og 2000 en töpuðu leiknum um 3. sætið á móti Bandaríkjunum á síðustu leikum, í Aþenu 2004. Zydrunas Ilgauskas, leikmaður Cleveland Cavaliers, hafði sýnt mikinn áhuga á að spila með landsliðinu á ný en ekkert varð úr því eftir að forráðamenn Cleveland lögðust á móti því.  

Þó er nóg af öðrum frábærum leikmönnum í liðinu og tveir þeirra spila í NBA, Linas Kleiza og Darius Songaila.  Kleiza, sem er 203 cm framherji, sló í gegn með Denver í vetur þar sem hann skorað 11,1 stig í leik á aðeins 23,9 mínútum en hann var á sínu þriðja ári í deildinni. Darius Songaila var með 6,2 stig og 3,4 fráköst á 19,4 mínútum með Washington Wizards á sínu fimmta ári í NBA.  

Jón Arnór Stefánsson ætti að þekkja þá Rimantas Kaukenas og Ksystof Lavrinovic vel en þeir urðu einmitt Ítalíumeistarar með Monte­paschi Siena eftir sigur á Jóni og félögum í Lottomatica Roma. Lavrinovic, sem er stór og sterkur framherji, átti frábæra leiki í úrslitunum, sérstaklega þegar á reyndi í lok leikja.  Aðrir í hópi bestu leikmanna heims eru Sarunas Jasikevicius, sem varð Evrópumeistari með FC Barcelona 2003 og Maccabi Tel Aviv 2004 og 2005, og Ramunas Siskauskas sem varð Evrópumeistari með CSKA Moskvu í ár og með Panathinaikos í fyrra.  

Sarunas Jasikevicius sneri aftur í evrópska boltann eftir tvö tímabil í NBA og samdi við gríska liðið Panathinaikos til tveggja ára. Jasikevicius fékk sjö milljónir evra í sinn hlut (895 milljónir íslenskra króna) sem sýnir hversu mikils Grikkir mátu þennan snjalla bakvörð. Ramunas Siskauskas var valinn besti leikmaður Evrópukeppninnar í vetur en hann er 198 cm fjölhæfur framherji sem fáir ráða við einn á einn. Hann var einn af lykilmönnnunum á bak við sigurinn. 

Þetta er aðeins rjóminn af fjölmörgum frábærum leikmönnum Litháa sem íslenska landsliðið fær að mæla sig við um miðjan næsta mánuð. 

www.visir.is

 

Mynd: Jón Björn Ólafsson, [email protected]

Fréttir
- Auglýsing -