spot_img
HomeFréttirLeiðinlegt fyrir hann að sjá erfingjann hoppa hærra!

Leiðinlegt fyrir hann að sjá erfingjann hoppa hærra!

 
Í sumar gerðist Kristófer Acox einn þeirra sem mun reyna fyrir sér í bandarískum miðskóla við nám og körfuboltaiðkun. Kristófer hefur vakið töluverða athygli í yngri flokkum enda mikill háloftafugl líkt og faðir hans Terry Acox sem lék hérlendis á sínum tíma. Á síðasta tímabili var Kristófer farinn að banka á dyrnar hjá meistaraflokki KR og var byrjunarliðsmaður í U18 ára landsliði Íslands á NM í Svíþjóð fyrr á þessu ári. Karfan.is náði í Kristófer í Bandaríkjunum sem segist sjálfur vera kominn ,,hærra” en pabbi sinn!
,,Skólinn heitir Spring Valley High School og er staðsettur í Columbia, South Carolina. Það eru yfir 2000 nemendur í skólanum og stærðin á skólasvæðinu er fáranleg, gæti þess vegna verið college, þannig að það er þokkalegur munur að fara frá Kvennó yfir í SVHS en það gerir þetta bara skemmtilegra,” sagði Kristófer sem tekur þrjú fög þessa önnina.
 
,,Við fengum bara 3 vikur til að æfa í september með þjálfaranum okkar og fóru þær æfingar mest bara í að koma okkur í form en bróðir hans tekur við okkur núna og er með þrekæfingar, drill og skotæfingar 2-3 í viku en við þurfum að borga sérstaklega fyrir þær æfingar ef við viljum mæta. Liðið hefur verið fremur slappt síðastliðin ár en er talið mjög sterkt þetta tímabilið og eru miklar væntingar bornar til okkar,” sagði Kristófer og keppninni lýkur ekkert þegar úr skólanum er komið, kall faðir hans er á leið í aðgerð á hné!
 
,,Síðan er pabbi að bíða eftir hnéaðgerðinni sinni svo að hann geti tekið aðeins á mér á vellinum, verður samt leiðinlegt fyrir hann að sjá að erfinginn sé farinn að hoppa hærra en hann,” sagði Kristófer kotroskinn en varðandi skólaliðið sjálft þá er ekki komin endanleg mynd á liðið.
 
,,Það er ennþá verið að setja saman liðið, það verður tilkynnt í október og tímabilið byrjar ekki fyrr en í október/nóvember.”
 
Ljósmynd/ nonni@karfan.is  – Kristófer með íslenska U18 ára landsliðinu gegn Finnum á NM 2010.
 
Fréttir
- Auglýsing -