spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaLeggja skóna á hilluna saman

Leggja skóna á hilluna saman

Tvíburasysturnar Anna og Lára Ásgeirsdætur hafa ákveðið að leggja skóna á hilluna 23 ára gamlar.

Báðar eru þær leikmenn uppeldisfélags síns í Njarðvík og hafa þær á síðustu árum báðar leikið þar við góðan orðstýr. Samkvæmt tilkynningu Njarðvíkur hætta þær báðar af persónulegum ástæðum í sátt og samlyndi við stjórn og þjálfarateymi liðsins. Anna og Lára léku upp alla yngri flokkana í Njarðvík og urðu þar m.a. Íslandsmeistarar, þær léku einnig með Njarðvík í fyrstu deild kvenna, þá á grunnskólaaldri, og fóru upp um deild með liðinu.

Síðar fögnuðu þær Íslandsmeistaratitli með Njarðvík og bikarmeistaratitli á síðustu leiktíð. Óhætt er því að segja að ferill þeirra systra hafi verið glæstur en þær eiga einnig báðar landsleiki að baki með yngri landsliðum Íslands. Anna Lilja á að baki 132 leiki með Njarðvík í deild og úrslitakeppni í úrvalsdeild kvenna, Lára á að baki 112 leiki þar sem hún dvaldi um hríð í Bandaríkjunum við nám.

„Anna og Lára eru frábærir félagsmenn og stórkostlegir liðsmenn. Anna á sérstaklega mikið hrós skilið fyrir að hafa dugað svona lengi miðað við erfiða meiðslasögu sem leikmaður. Aðgerðir og fleira settu strik í reikning hennar en að mati þeirra beggja var nú kominn tími til að loka þessum körfuboltakafla hjá sér,“ sagði Einar Árni Jóhannsson þjálfari Njarðvíkur.

Fréttir
- Auglýsing -