LeBron James, ofurstjarna Cleveland Cavaliers og ríkjandi MVP, hefur ákveðið að standa við stóru orðin og hefur sótt um að skipta um númer fyrir næsta ár.
James hefur alla tíð leikið í nr. 23 til heiðurs Michael Jordan, en stakk upp á því í fyrra að allir tækju sig saman um að leggja því númeri sem vott um virðingu fyrir þessum frægasta og sennilega besta körfuknattleiks manni allra tíma.
Sporting News hafa í dag eftir blaði í Cleveland að James sé full alvara. „Ég er búinn að senda inn umsóknina, ég verð númer 6.“
Nýja númerið er það sama og hann notaði með landsliðinu á ÓL í Peking 2008.
NBA-deildin hefur áður sagt að hún geti ekki lagt númerinu, heldur sé það mál hvers félags. Eins og er eru ekki fleiri stórnöfn með 23 á treyju sinni þannig að telja má næsta víst að hinum minni spámönnum verði trauðla stætt á að halda númerinu.



