spot_img
HomeFréttirLeBron til Miami með Bosh og Wade - Cleveland í sárum

LeBron til Miami með Bosh og Wade – Cleveland í sárum

LeBron James ákvað í gærkvöldi, eftir margra mánaða vangaveltur,  að yfirgefa heimabæ sinn Cleveland og semja við Miami Heat til fimm ára, þar sem hann mun mynda eitt sterkasta þríeyki sem sést hefur í sögu NBA.

 
Hann mun þar taka höndum saman við Dwayne Wade og Chris Bosh, en Wade framlengdi við félagið á meðan Bosh kemur suður til Flórída frá Toronto Raptors.
Ekki þarf að fjölyrða um áhrifin sem þessar breytingar í Miami gætu haft á deildina, en hafa skal í huga að ef liðið nær að losa sig við Michael Beasley, eins og búist er við, munu þeir aðeins hafa einn annan leikmann samningsbundinn, leikstjórnandann Mario Chalmers, og þarf Pat Riley, forseti Miami, að bæta við um tíu leikmönnum sem verða að vera tilbúnir til að leika fyrir lágmarkslaun eða allt að því.

 
Ákvörðun James olli að sjálfsögðu miklum vonbrigðum í Cleveland, en stuðningsmenn liðsins og eigendur, sem hafa gert nánast allt til að friða LeBron og sannfæra hann um að verða áfram í sinni heimasveit, eru eyðilögð.
 
Fólkið fór út á götu þar sem sumir brenndu jafnvel treyjur merktar James og grýttu stærðarinnar veggmynd með hetjunni, á meðan Dan Gilbert, eigandi Cavs, ritaði opið bréf til stuðningsmanna þar sem hann kallaði LeBron heigul og svikara.
 
Í bréfinu, sem má lesa hér, lofar Gilbert einnig að Cleveland Cavaliers muni vinna meistaratitil áður en "Kóngurinn" muni gera það í Miami.
 
Hvernig sem fer verður fróðlegt á að horfa hvort þessi magnaða þrenning geti komið saman og myndað kjarnann í meistaraliði. Boston Celtics tókst það fyrir þremur árum, en margt verður að skýrast á næstu dögum og vikum áður en hægt verður að slá því föstu að Miami muni velta LA Lakers úr sessi NBA meistara.
Fréttir
- Auglýsing -