spot_img
HomeFréttirLeBron James hefur misst nokkur kíló

LeBron James hefur misst nokkur kíló

LeBron James birti nýverið myndir af sér á Instagram þar sem hann sýnist umtalsvert grennri en hann hefur verið undanfarin ár.  Ástæðan er sögð vera sú að hann hefur tekið út öll kolvetni úr matarræði sínu. Þetta þyngdartap hefur valdið nokkrum ugg hjá stuðningsmönnum Cleveland Cavaliers nú þegar LeBron mun leika með þeim á næstu leiktíð. Ef lesið er frekar í spilin gæti þetta verið vísbending um margt annað.
 
 
Það er heimsþekkt að LeBron fékk krampa í leik 1 gegn San Antonio Spurs í úrslitunum í sumar. Þeir sem vel þekkja vita að verði leikmenn fyrir miklu vökvatapi eru þeir sem bera mestan vöðvamassa líklegastir til að fá krampa. Mögulega er LeBron að koma í veg fyrir slíkar aðstæður í framtíðinni.
 
Miami Heat voru arfaslakir í teignum oft á tíðum og þurfti LeBron oft að dekka stærri og þyngri leikmenn í teignum. Cavaliers eru mun betur settir í þeirri stöðu og því tilvalið fyrir James að tálga sig niður til að auka enn frekar snerpuna.
 
Flestir sérfræðingar vestan hafs hafa þó túlkað þessi tíðindi sem svo að nú sé fullvíst að samkomulag um skipti við Minnesota Timberwolves sem færðu Cavaliers Kevin Love fyrir næstu leiktíð sé í uppsiglingu. Orðrómur hefur verið uppi um að Cleveland muni láta frá sér Andrew Wiggins, Anthony Bennett og valrétt í fyrstu umferð nýliðavalsins 2018 í skiptum fyrir Kevin Love og Corey Brewer. Líklegast þykið þó að þriðja liðið verði tekið með í skiptin þar sem þau ganga ekki upp svona, og hafa 76ers verið nefndir þar á nafn.
 
Gangi þessi skipti eftir, þ.e. að Cavaliers láti frá sér Wiggins og fái Love, er léttari LeBron alls ekki slæm hugmynd. 
Fréttir
- Auglýsing -