19:32
{mosimage}
Síðasliðinn mánudag birti Morgunblaðið heilsíðu umfjöllun um starf Sideline Sports á Selfossi. Í þessari umfjöllun kemur margt fróðlegt fram sem ekki allir Íslendingar vissu af. Morgunblaðið hefur gefið okkur á karfan.is til að birta umfjölluina í heild sinni fyrir þá sem ekki keyptu blaðið á mánudag.
Allir leikir á heims- og Evrópumótum á vegum FIBA eru krufðir til mergjar á Íslandi
Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Sideline Sports er leiðandi í framleiðslu kennsluefnis á vefsíðu FIBA
STÆRÐ FIBA, Alþjóðakörfuknattleikssambandsins, er mikil en það er talið að allt að 450 milljónir leikmanna á öllum aldri stundi íþróttina á heimsvísu. FIBA, er með 213 sérsambönd frá jafnmörgum þjóðum í sínum röðum. Miðað við umfang og stærð FIBA er það í raun ótrúlegt að kennsluefni sem birt er í margmiðlunarformi á heimasíðu FIBA er framleitt frá A-Ö á Selfossi. Já, á Selfossi en ekki í Bandaríkjunum, Ítalíu eða þeim löndum sem eru í fremstu röð á heimsvísu. Litla Ísland er enn og aftur í fremstu röð í útrásinni. FIBA hefur gert samning íslenska fyrirtækið Sideline Sports um að fyrirtækið taki að sér að framleiða allt kennsluefni í körfuknattleik fyrir sambandið næstu fjögur árin. Stofnendur Sideline Sports og aðaleigendur eru Guðbrandur Þorkelsson og Brynjar Karl Sigurðsson.
En hvernig stendur á því að FIBA leitar til Íslands þegar kemur að leikgreiningu á leikjum frá stórmótum og framleiðslu á kennsluefni sem er aðgengilegt fyrir alla þá sem hafa áhuga? Brynjar Karl situr fyrir svörum í einni kennslustofu FSu þegar Morgunblaðið náði tali af honum en af og til er samtal okkar truflað vegna símtala erlendis frá og nokkrir leikmenn FSu þurfa einnig að fá athygli frá þjálfaranum. Það er greinilega nóg að gera í vinnunni.
Guðbrandur kemur öllu í verk
„Áður en við byrjum þá verður það að koma fram að Guðbrandur er sá sem kemur öllu í verk og sér um að hugbúnaðurinn virkar. Án hans og annarra starfsmanna værum við ekki komnir svona langt. Þetta er eiginlega til komið vegna samnings sem að Sideline Sports gerði við FIBA fyrir u.þ.b. 2 árum þegar FIBA gerði hugbúnað Sideline Sports að opinberum hugbúnaði sínum. Eftir það hafa þeir verið að fylgjast með þróuninni og hvernig hann er notaður við þjálfun hjá FSuliðinu. Þetta hefur verið að vinda upp á sig jafnt og þétt. Það eru kannski ekki margir á Íslandi sem vita hvað við erum að gera hérna á Suðurlandinu. Enda eru fáir sem tengja alþjóðlegt brautryðjendastarf í körfubolta við Selfoss. Þeir hjá FIBA hafa mikla trú á því sem við erum að gera hérna hjá FSu og einn af yfirmönnum FIBA, Zoran Radovic frá Serbíu, mun koma hingað til lands á næsta ári til þess að skoða hvað er svona merkilegt að gerast í einhverjum smábæ á Íslandi. Þetta er raun miklu meira en viðkenning á störfum okkar hjá FSu, körfuknattleiksakademíunni. Þetta er yfirlýsing frá FIBA um að það sem við erum að gera sé á heimsmælikvarða. Það er töluverð ábyrgð sem að fylgir öllu okkar samstarfi við FIBA þar sem öll okkar vinna mun hafa mikil áhrif á hvernig vinnubrögð þjálfara er að þróast og það hvernig íþróttin er kennd. “
Hvernig tókst ykkur að selja FIBA þessa hugmyndafræði og hugbúnað?
„Það er löng saga á bak við þetta allt saman. Ég fór í mikið ævintýri árið 2002 þegar ég fór til Bandaríkjanna og stofnaði SidelineSports US. Í það ferðalag fór ég með fartölvu og föt í tösku, en ég hafði í raun enga hugmynd um hvað ég ætlaði mér að gera. Ég þekkti tvo aðila í Bandaríkjunum, þjálfara sem ég hafði verið hjá, og það er óhætt að segja að ég hafirennt blint í sjóinn. Það gekk ótrúlega vel á fyrsta árinu og ég náði að mynda tengslanet úti um allt og það gekk vel að selja hugbúnaðinn. Þessi tími var í raun alveg ótrúlegur. Ég ferðaðist í þrjú ár út um þver og endilöng Bandaríkin og það kom oft fyrir að ég vissi ekki hvar ég ætlaði að sofa um nóttina. Og stundum vissi ég ekki einu sinni í hvaða ríki ég var staddur þegar ég vaknaði og þá var eina leiðin að finna símaskrá og átta sig á því hvar maður var. Þetta var mikið ævintýri. Í einni af söluferðunum kynntist ég Oliver Purnell sem á þeim tíma var þjálfari háskólaliðsins Dayton og þjálfaði bandaríska Ólympíulandsliðið með Larry Brown sem þjálfaði NBA meistara Detroit Pistons. Á sama tíma fór ég líka að vinna með þjálfurum Grizzlies og kenna þeim á hugbúnaðinn og einn þeirra var að skrifa einhverjar greinar inn á FIBA-vefinn. Á þeim tíma vorum við ekkert að spá í FIBA þannig að það kom okkur verulega á óvart þegar fræðslustjóri FIBA hringdi á skrifstofuna og lýsti áhuga sínum á því sem við vorum að gera. FIBA menn voru þá búnir að sjá hugbúnaðinn í notkun hjá nokkrum aðilum eins og Grizzlies og bandaríska Ólympíuliðinu og þetta varð til þess að boltinn fór að rúlla,“ segir Brynjar.
Skrifa skýrslur og leikgreina stórmót á vegum FIBA
Og hvað eruð þið að gera fyrir FIBA?
„Það er í raun tvennt sem við erum að gera. Við leikgreinum stórmót á þeirra vegum og búum einnig til fræðsluefni sem er birt er á FIBA-vefnum. Við berum ábyrgð á að skrifa skýrslur um Evrópu – og heimsmeistarakeppnina en þar förum við yfir upptökur úr hverjum einasta leik í karla – og kvennaflokki hjá U18 ára liðum og eldri. Við leikgreinum hverja sókn í gegnumSideline-forritið og skilgreinum hvert einasta atvik. Þetta eru oftast í hverjum einasta leik. Þegar við erum búnir að skila þessu af okkur geta þeir sem vilja skoðað ótrúlega marga þætti leiksins. Borið þá saman við ýmsa aðra þætti og í raun eru möguleikarnir óteljandi. Sem dæmi má nefna að landsliðsþjálfari Bandaríkjanna getur með einfaldri skipun fengið myndbrot frá öllum skotum LeBron James í síðustu heimsmeistarakeppni. Hann getur í raun fengið myndbrot og tölfræðigreiningu frá ótal mörgum atvikum – með lítilli fyrirhöfn, á sama tíma. Þeir sem nýta sér þessa tækni þurfa því ekkert að troða VHSspólu í myndbandstæki og fara að spóla fram og til baka – eins og við þekkjum.“
Nýtt efni í hverri viku fyrir milljónir lesenda
„Við erum einnig að framleiða kennsluefni og mun Sideline Sports birta nýjar æfingar og greinar á heimasíðu FIBA í hverri einustu viku næstu fjögur árin. Efnið er í eigu fyrirtækisins og mun það einnig vera birt á heimasíðu FSu – www.basket.is. Síðustu tvö ár hefur www.basket.is haldið úti stórum æfingabanka sem hefur verið öllum aðgengilegur. Fyrstu tökurnar á efni fóru fram í Frakklandi í þarlendri körfuboltaakademíu en nú hefur verið ákveðið að kennsluefnið veði allt tekið upp hér á Selfossi á okkar heimavelli í Iðu. Það er skemmtilegt að fá þetta heim á Selfoss. Við erum búnir að breyta íþróttahúsinu í upptökuver. Keyptar hafa verið svartar „drapperingar“ eða tjöld sem hylja alla veggi, einnig hafa verið settir upp 25 stórir ljóskastarar til að lýsa upp völlinn.
Brynjar segir að kennsluefnið verði byggt upp með hreyfimyndum myndskeiðum, og myndum. Einnig verður hægt að hlaða efninu niður og vinna með það í Sideline Organizer, sem er hugbúnaður þar sem þjálfarar geta skipulagt og greint vinnu sína.
Gengur hægt á Íslandi
FIBA skiptist upp í fimm sambönd sem sjá um að halda utan um hlutina í Asíu, Evrópu, Ameríku, Afríku og Eyjaálfu. Brynjar segir að samstarfið við FIBA í Evrópu sé nánast ekkert og menn sem ráði þar ferðinni hafi ekki áhuga á íslensku útrásinni. „Það er svolítið undarlegt en við erum eingöngu að vinna með FIBA en ekki FIBA Europe. Þannig er staðan í dag en kannski á þetta eitthvað eftir að breytast.“
Það eru ekki aðeins erlend landslið og sérsambönd sem geta nýtt sér íslenska hugvitið. Sl. haust var það samþykkt að öll lið í Iceland Express-deild karla myndu senda upptökur til FSu og þar myndu leikirnir vera leikgreindir af nemendum FSu og þjálfurum. „Ég verð nú að segja að þetta fer hægar af stað en ég átti von á. Menn eru ekki alveg nógu fljótir að senda okkur gögn til þess að vinna úr og ég held að menn séu hræddir um að ljóstra upp einhverjum leyndarmálum ef við fáum að vinna úr þessum gögnum. Ég lít ekki þannig á málið. Að mínu mati er þetta frábært tækifæri fyrir íslenskan körfubolta að taka skref fram á við. Það eru bara ekki allir tilbúnir til þess eins og staðan er í dag. Vonandi á þetta eftir að breytast og það er mitt markmið að sem flestir þjálfarar geti notað hugbúnaðinn og bætt þar með gæðin í þjálfun á Íslandi. Og skiptir þá engu máli hvaða grein er um að ræða.“
Breyttar áherslur
Fyrir tveimur árum setti Brynjar á laggirnar akademíu á Selfossi í samvinnu við Fjölbrautaskóla Suðurlands. Hugmyndafræðin var í fyrstu sú að fá leikmenn víðsvegar að frá landinu öllu og kenna þeim að takast á við körfuknattleiksíþróttina, samhliða námi. Liðið er í 1. deild og tapaði fyrsta leik sínum sl. föstudag gegn Breiðabliki á útivelli. Brynjar ætlar sér að ná árangri með hið unga liðs FSu.
„Það eru gerðar miklar kröfur til okkar leikmanna. Þeir þurfa að standa sig í skólanum. Agareglurnar eru mjög strangar á æfingum og utan þeirra. Í raun eru þeir að takast á við allt það sem þeir þurfa síðan að glíma við í lífinu. Sú hugmynd sem við lögðum upp með í upphafi hefur ekki alveg gengið upp.
Við lögðum upp með að fá til okkar bestu ungu leikmennina úr öðrum liðum á fyrstu menntaskóla árum þeirra og gera vensla samning við liðinn til að tryggja að endurkomu þeirra í sín gömlu félög. Í stað þess að gefast upp breyttum við um áherslur og við ætlum að byggja félagið upp frá grunni með yngri flokkum og öllu því sem fylgir. Það var ekki ætlunin að fara þessa leið en við sáum að það var erfiðara en við héldum að fá unga og efnilega leikmenn frá öðrum liðum til okkar. Yngri flokka starfið gengur vel og við notum alla þá tækni sem við höfum yfir að ráða í því starfi,“ segir Brynjar Karl Sigurðsson.
Þjálfari New Jersey Nets fær „íslenska“ aðstoð
ÞAÐ eru margir þjálfarar sem nota íslenska hugbúnaðinn frá Sideline í Bandaríkjunum og þar á meðal eru lið í NBA-deildinni. Þekktir leikmenn á borð við Allen Iverson og Carmelo Anthony hjá Denver Nuggets og Jason Kidd og Vince Carter hjá New Jersey Nets eru allir undir smásjá sinna þjálfara sem nota Sideline í leikgreiningu. „Ég er í mjög góðu sambandi við Frank Lawrence, aðalþjálfara New Jersey Nets, en hann var einn af þeim fyrstu sem tileinkuðu sér hugbúnaðinn frá okkur. Að auki er sá sem sér um leikgreiningu hjá Denver Nuggets með Sideline-hugbúnað en hann var áður hjá Memphis Grizzlies. Það eru mjög margir þjálfarar í framhaldsskólum og háskólum viðskiptavinir okkar og það er alltaf gaman að fá viðbrögð frá notendum hugbúnaðarins,“ segir Brynjar Karl. Hann er á þeirri skoðun að allir geti notað hugbúnaðinn. „Besta dæmið er frá Birmingham Southern þar sem Jakob Sigurðarson var í nokkur ár. Þjálfari liðsins er mjög reyndur en þegar ég hitti hann fyrst komst ég að því að hann hafði ekki neina þekkingu á tölvum. Hann kunni ekkert á tölvur. Á fyrsta fundi okkar bað ég hann um að „ýta á OK“ á skerminum. Hann tók mig á orðinu og ýtti bara á OK merkið á skjánum en notaði ekki músina til þess að smella á OK. Þessi maður er í dag að nota forritið alla daga og það segir manni að við erum að gera eitthvað rétt,“ segir Brynjar Karl.
Hélt að „Stóri Sam“ væri húsvörðurinn
NOKKUR ensk knattspyrnulið hafa keypt hugbúnað frá Sideline Sports og má þar nefna Bolton. Brynjar Karl viðurkennir það fúslega að þekking hans á ensku knattspyrnunni sé ekki mikil og hafði hann t.d. ekki hugmynd um hver Sam Allardyce var þegar hann fundaði með Bolton á sínum tíma. „Ég veit ekki hvert Guðni Bergsson ætlaði þegar hann sá hvernig ég kom fram við „Stóra Sam“ en ég hafði ekki hugmynd um hver hann var. Ég fékk að funda með þeim og kynna hugbúnaðinn. Hugtakið coach, eða þjálfari, var mun stærra í mínum huga en einhver yfirmaður knattspyrnumála eða hvað svo sem Englendingar kalla þann sem ræður öllu. Ég var vanur því að selja vöruna okkar í Bandaríkjunum og beindi því orðum mínum að þeim sem voru coach hjá félaginu eða þjálfarar. Ég ræddi nánast ekki neitt við knattspyrnustjórann Sam Allardyce á þessum fundi. Jú, ég bað hann um að kveikja og slökkva ljósin í salnum enda sat hann alveg við vegginn. Og eftir fundinn spurði ég Allardyce hvort hann myndi ekki ganga frá eftir okkur í salnum. Eftir fundinn var ég alveg miður mín þegar mér var sagt frá því hver það var sem réði ferðinni hjá félaginu. Ég hafði ekki hugmynd um hver hann var og satt best að segja hélt ég að hann væri húsvörður eða eitthvað álíka. En það sem skiptir mestu máli er að Bolton keypti hugbúnaðinn og Allardyce var mjög sáttur við það sem ég hafði fram að færa,“ segir Brynjar.
Alþjóðlegt fyrirtæki
SIDELINE Sports, sem var stofnað árið 2001, stendur fyrir öflugri markaðssetningu á alþjóðamarkaði sem hugbúnaðar- og ráðgjafafyrirtæki við þjálfun íþróttafólks í mismunandi íþróttagreinum. Stofnendur Sideline Sports og aðaleigendur þess eru Guðbrandur Þorkelsson og Brynjar Karl Sigurðsson en um 10 manns starfa hjá fyrirtækinu í þremur löndum. Guðbrandur útskrifaðist sem tölvunarfræðingur úr Háskóla Íslands 1998. Hann hefur yfirumsjón með allri hugbúnaðarþróun innan fyrirtækisins ásamt sölu- og markaðsmálum í Evrópu. Brynjar Karl er fyrrverandi Alandsliðsmaður í körfuknattleik. Hann spilaði körfubolta í menntaskóla í Bandaríkjunum og hlaut skólastyrk til þess að spila körfubolta í bandarísku Háskóladeildinni. Brynjar hefur fengist við þjálfun á öllum stigum körfubolta hérlendis síðustu 13 árin. Hann hefur yfirumsjón með sölumálum og vöruþróun.
Aðalvörur Sideline Sports eru Sideline Organizer og Sideline Video Analyzer. Sideline Organizer er hugbúnaður sem gerir daglegt starf þjálfarans auðveldara og hjálpar honum að skipuleggja sig. Hugbúnaðurinn skiptist í æfinga- og leikaðferðasafn, dagatal, teiknikerfi, tímaseðlaskrá, meistaraáætlun og tölfræðihluta. Allir þessir þættir eru sjálfstæðir hlutar en tengjast innbyrðis. Þjálfarinn hefur mjög mikil not fyrir kerfi sem þetta til að halda utan um æfingar og leikaðferðir, teikna upp kerfi, greina vinnu sína með tölfræði, miðla efni til leikmanna o.fl.
Kostir hugbúnaðarins eru þeir að þjálfarinn getur komið öllum þeim gögnum, sem tengjast hans þjálfun til lengri og skemmri tíma, á einn stað. Hingað til hafa þjálfarar notast við stílabækur, útgefnar fræðslubækur og forrit eins og Word og Excel til að halda utan um sín æfingasöfn. Sideline Organizer sameinar þá þætti sem þjálfarar þarfnast á einum stað, í einu forriti. Kerfið gerir þjálfaranum kleift að sameina kosti gagnageymslu í formi æfingasafns.
Sideline Video Analyzer er hugbúnaður sem þjálfari notar til þess að greina leik á myndrænu formi. Hugbúnaðurinn býr til gagnagrunn með öllum myndskeiðum í greindum leikjum. Þjálfarinn getur svo sett fyrirspurnir inn í þennan gagnagrunn um tölfræði úr leikjum ásamt myndskeiðum.
Morgunblaðið – Sigurður Elvar Þórólfsson
Mynd: www.basket.is



