10:38:09
Denver Nuggets og Cleveland Cavaliers eru komin með annan fótinn í þriðju umferð úrslitakeppni NBA eftir sigra í leikjum næturinnar, en þau leiða bæði 3-0 og þurfa því aðeins einnsigur í viðbót. Cleveland vann Atlanta, 97-82 og hafa unnið alla sjö leiki sína í úrslitakeppninni með meira en 10 stiga mun, sem er NBA met, á meðan Denver lagði Dallas, 105-106, með umdeildri körfu Carmelo Anthony á lokasekúndunum.
LeBron James fór hamförum gegn Atlanta þar sem hann skoraði 47 stig, tók 12 fráköst og gaf 8 stoðsendingar, en samkvæmt tölfræðispekingum Cleveland-liðsins, eru þetta tölur sem enginn hefur áður náð í úrslitakeppni NBA. Þó Atlanta léti finna fyrir sér í fyrsta sinn í þessari seríu áttu þeir ekki roð í James og er nánast útséð með framhaldið. Hawks komust yfir í upphafi seinni háfleiks með 13-0 spretti, en þegar Zaza Pachulia var hent í sturtu fyrir að veitast að dómara eftir að fá á sig villu, dofnuðu vonir Hawks. James tilkynnti sínum mönnum að hann skyldi taka stjórnina og gerði það með glæsibrag.
James hefur verði rauðglóandi í þessari rimmu þar sem hann hefur skorað 108 stig á þeim 108 mínútum sem hann hefur spilað í leikjunum þremur og hefur bara bætt í ef nokkuð er frá því að hann var krýndur MVP fyrir nokkrum dögum.
Sigurkarfa Carmelos Anthony gegn Dallas var ekki umdeild. Flestir eru sammála um að hún var ólögleg. Dallasmaðurinn Antoine Wright vissi sem var að Dallas áttu eina villu til að gefa án þess að til vítaskots kæmi og hugðist nota hana þar sem þeir voru tveimur stigum yfir og nokkrar sekúndur til leiksloka. Hann braut á Anthony en ekkert var dæmt og endurtók leikinn með sama árangri. Við það teygði hannsig of langt og opnaði skotfæri sem Anthony lét ekki bjóða sér tvisvar og smellhitti 3ja stiga skoti þegar um sekúnda var til leiksloka.
Denver hafði átt agalegan leik framan af og ekkert gekk upp. Nene og Chris Anderson voru því sem næst gagnslausir undir körfunni og ´Melo var ískaldur framan af. Dallas náðu hins vegar aldrei að gera út um leikinn og geta sjálfum sér um kennt að halda Denver inni í leiknum.
Munurinn var aldrei meiri en sex stig og undir lokin voru Denver hreinlega sterkari. Þegar hálf mínúta var eftir voru Dallas fjórum stigum yfir, en þá smeygði ´Melo sér í gegnum vörnina og minnkaði muninn með sniðskoti, Dirk Nowitzki klikkaði á stökkskoti í næstu sókn og Denver átti von.
Eftir að lokaflautan gall voru Dallas menn æfareiðir út í dómarana og litlu mátti muna að hinn dagfarsprúði eigandi liðsins, milljarðamæringurinn Mark Cuban, færi á límingunum. Villa hefði þýtt að Denver fengju innkast, sem á að vera auðveldara að verjast, en Wright fannst hann hafa gert nóg til að fá villuna. „Hvað átti ég að gera? Henda honum í gólfið og fá ásetning? Við vissum nákvæmlega hvað við ætluðum að gera og ég gerði það. Við fengum bara ekki dóminn.“
Skömmu eftir leik barst tilkynning frá NBA-deildinni þar sem mistökin voru viðurkennd. Dómarar leiksins höfðu misst af villunni.
Jason Kidd, sem hefur marga fjöruna sopið á löngum ferli, sagði þó eftir leikinn að leikurinn hafi ekki tapast á þessu eina atviki. „Við þurftum að klára leikinn undir lokin og gerðum það einfaldlega ekki.“
Þagnarstund var fyrir báða leikina í minningu um þjálfarann Chuck Daly, sem lést fyrr um daginn.