ÍR-ingar hafa fengið nýjan bandarískan leikmann í stað Terry Leake Jr. en sá hefur nú komið sér fyrir í vesturbænum og samið við KR til næstu tveggja vikna á reynslu. Leake fór því ekki langt, reyndar yfir línu þar sem erkifjendur mætast.
KR-ingar hafa ekki telft fram Bandaríkjamanni síðan Shawn Atupem fór frá félaginu og hvort liðið semji áfram við Leake á eftir að koma í ljós þar sem leikmaðurin er á tveggja vikna reynslu hjá KR.
Leake var með 18,2 stig og 8,4 fráköst hjá ÍR þegar leiðir skildu og verður fróðlegt að sjá hvað hann færi liði KR sem verður án Jón Orra næstu daga en Jón Orri snéri sig á ökkla á dögunum, sama ökkla og var að plaga hann fyrr í haust.
Karfan.is ræddi við Finn Frey Stefánsson þjálfara KR um nýjasta liðsmanninn: „Við vorum í raun búnir að taka ákvörðun um að spila án kana til jóla þegar Jón orri meiðist. Við erum ekki breiðir undir körfunni og fyrst Leake losnaði og var a landinu ákváðum við að prófa hann. Hann var ekki það sem ÍR-ingarnir þurftu en gæti smollið inni okkar þarfir,“ sagði Finnur sem teflir fram Leake í kvöld þegar röndóttir taka á móti Njarðvík.
Gera má ráð fyrir miklum slag í DHL Höllinni í kvöld enda síðasta viðureign liðanna æsispennandi og KR-ingar þeir eiga harma að hefna. Að þessu sögðu ætti enginn að láta sig vanta enda Njarðvíkingar í sama gír og Haukar þessi misserin, þið fáið bara hjartastyrkjandi 40 mínútur þegar þessi lið eru á parketinu.



