Karlalið Laugdæla kom Tindastólsmönnum í opna skjöldu með kraftmiklum leik. Liðið hafði ekki tapað leik í 2. deildinni til þessa og lagði Hött í fyrstu umferð Subway bikarsins. Það var því eftirvænting í hópnum að fá "alvöru" mótherja á Vatnið. Stólarnir voru þreytulegir til að byrja með enda innan við sólarhringur frá framlengdum leik þeirra við ÍR í úrvalsdeildinni.
Laugdælir skoruðu fyrstu stigin ákafir í að sýna getu sína. Í stöðunni 15-15 eftir 7 mín leik bilaði leikklukkan og varð stopp í 5 mín vegna þess. Þetta stopp nýttu Stólarnir vel til að endurskipuleggja leik sinn og tóku leikinn í sínar hendur eftir það. Munurinn varð þó aldrei meiri en 26 stig í leiknum og ákafi heimamanna skilaði þeim góðum lokaspretti og stöðunni 72-88, árangri sem fáir hefðu þorað að veðja á fyrirfram. Góðir dómarar leiksins voru Bjarni Gaukur Þormóðsson og Georg Andersen.
Atkvæðamestir í liði Laugdæla voru Jón Hrafn Baldvinsson með 20 stig og sex fráköst, Bjarni Bjarnason skoraði 12 og naut sín greinilega vel gegn sterkari andstæðingum, Sigurður Orri Hafþórsson átti góðar rispur og skoraði 12 stig og Anton Kári Kárason skoraði 11 stig. Af gestunum var Svavar Birgisson öflugur með 20 stig og fimm fráköst. Helgi Rafn Viggósson gerði 18 stig og var fyrirferðamikill undir körfunni með fimm sóknarfráköst og 13 varnarfráköst, þá setti Friðrik Hreinsson setti niður 12 stig. Áhorfendur voru sorglega fáir
Stúlkurnar í Laugdælum tóku á móti stöllum sínum í Stjörnunni en liðin spila bæði í 1. deild. Ólíkt karlaliðinu hafði konunum í Laugdælum ekki tekist að sigra leik í vetur. Nýr þjálfari liðsins er Gísli Pálsson sem áður var aðstoðarmaður spilandiþjálfara Margrétar Harðardóttur, hvatti stúlkurnar ákaft áfram sem skilaði sér í afgerandi forystu allt frá upphafsmínútum og fram í síðasta leikhluta. Stjörnustúlkurnar sem mættu aðeins sjö talsins náðu að jafna 3 mínútum fyrir leikslok 44-44 eftir að hafa verið undir 42-27. Síðustu mínúturnar voru æsispennandi en liðsmunurinn sagði til sín í lokin og Laugdælur lönduðu sínum fyrsta sigri og eru komnar áfram í Subwaybikarnum.
Aðalsteinn Hrafnkelsson og Ágúst Jensson dæmdu vel þennan leik. Athygli vakti að KKÍ sendir tvö dómarapör á Laugarvatn til að dæma sinnhvorn leikinn. Þarna hefði mátt spara á þriðja tug þúsunda með því að nota sömu dómara og dæmdu karlaleikinn.
Kári Jónsson
Mynd: [email protected]



