spot_img
HomeFréttirLaugdælir sóttu tvö stig í greipar Þórsara

Laugdælir sóttu tvö stig í greipar Þórsara

 
Þórsarar þurftu að játa sig sigraða, 28-52 þegar þær mættu Laugdælum í 8. umferð 1. deild kvenna í körfuknattleik. Gestirnir byrjuðu leikinn af miklum krafti og náðu fljótt yfirhöndinni. Eftir fyrri hálfleikinn virtist allt stefna í auðveldan sigur gestanna en heimamenn sýndu mikla baráttu í þeim síðari og létu gestina hafa fyrir hlutunum. Gestirnir voru þó sterkari og lönduðu að lokum 28-52 sigri og náðu þar með að landa sínum þriðja sigri í vetur.
Gestirnir byrjuðu leikinn af miklum krafti og skoruðu fyrstu tíu stig leiksins áður en Hulda Þorgilsdóttir náði að koma heimamönnum á blað. Heimamönnum gekk mjög illa að koma knettinum ofan í, þrátt fyrir að fá opin skot. Gestirnir nýttu sínar sóknir ögn betur og leiddu leikinn eftir fyrsta fjórðung með 9 stigum, 4-13. Annar leikhluti byrjaði afar rólega og áttu gestirnir í miklum vandræðum með svæðisvörn heimamanna og var ekkert skorað fyrstu tvær mínútur fjórðungsins. Þjálfari gestanna brá þá á það ráð að taka leikhlé. Leikhléið virtist skila ágætlega til gestina sem tóku smá kipp og áttu 14-3 sprett undir lok fjórðungsins og leiddu því leikinn í hálfleik, 7-27.
 
Heimamenn byrjuðu síðari hálfleikinn af miklum krafti og tóku 5-0 sprett í upphafi hálfleiksins sem varð til þess að gestirnir tóku leikhlé. Þrátt fyrir leikhléið þá náðu gestirnir aðeins að skora sex stig í fjórðungnum en sóknarleikur heimamanna náði ekki fylgja eftir góðri vörn og skoruðu einungis 10 stig og því leiddu gestirnir leikinn, 17-33. Þórsarar reyndu hvað sem þær gátu til að minnka forskot gestanna enn frekar en lítið gekk í sóknarleiknum þar sem knötturinn vildi einfaldlega ekki ofan í. Vörnin hélt þó gestunum í seilingarfjarlægð en þegar líða tók á fjórðungin setti þreyta strik í reikninginn hjá heimamönnum og smá saman náðu gestirnir að byggja upp gott forskot. Svo fór að gestirnir fögnuðu góðum 28-52 sigri og þar með sínum þriðja sigri í vetur.
 
Ljósmynd/ Rúnar Haukur: Frá viðureign liðanna í gær.
 
Umfjöllun: Sölmundur Karl Pálsson
Fréttir
- Auglýsing -