spot_img
HomeFréttirLaugdælir fengu kartöflu í skóinn

Laugdælir fengu kartöflu í skóinn

 
Það var sannkallaður Suðurlandsslagur á Laugarvatni í gærkvöldi þegar Laugdælir tóku á móti grönnum sínum úr FSu í seinasta deildarleik beggja liða fyrir jól. Ekki fór betur en svo að Laugdælir töpuðu fyrir gestunum og fara því í jólafrí með 2 sigra í 1. deild og komnir í 8-liða úrslitin í Powerade bikarnum (með útileik á móti Grindavík eftir áramót).
Leikurinn byrjaði ekkert glæsilega og Laugdælir virtust ekki alveg mættir til leiks á fyrstu mínútunum. Bakverðir FSu pressuðu bakverði Laugarvatns stíft sem sýndi sig í fjölmörgum villum en líka í því að sókn Laugdæla komst aldrei almennilega af stað. Selfyssingarnir sigu
hægt og rólega fram úr og höfðu 9 stiga forystu eftir fyrsta leikhlutann, 18-27.
 
Laugdælir vöknuðu til lífsins í öðrum leikhluta og með góðri vörn og betri sóknum skoruðu þeir 8 stig á móti 1 stigi á fyrstu 3 mínutunum. Eftir það fóru gestirnir aftur í gang og tóku sína eigin rispu næstu 7 mínúturnar þar sem þeir skoruðu 12 stig á móti 3 hjá gestgjöfunum. Staðan í hálfleik 29-40.
 
FSu byrjaði seinni hálfleikinn á miklu hærra tempó en Laugdælir. Fyrstu stig þeirra komu öll vegna sóknarfrákasta og Laugdælir voru í mörgum tilfellum að horfa á boltann frekar en að frákasta honum. Þeir skoruðu þó á móti og reyndu að halda sig inni í leiknum. Mikið var
skorað í þessum leikhluta og skoruðu Laugdælir næstum jafnmikið í þessum leikhluta (26 stig) og í öllum fyrri hálfleiknum (29 stig). FSu skoruðu þó 31 og staðan því 55-71 við upphaf seinasta leikhlutans.
 
Laugdælir áttu aðra góða rispu í byrjun fjórða leikhlutans og skoraði FSu ekki nema 2 stig fyrstu sex mínúturnar á móti 10 stigum hjá heimamönnum. Nú vantaði Laugdæli aðeins 8 stig upp á að jafna en FSu hleypti þeim ekki nær. Liðin skiptust á að skora seinustu mínúturnar og lokastaðan 75-85, FSu í vil.
 
Sigur FSu má að mestu þakka frákastabaráttunni, sem FSu vann með 11 fleiri fráköstum í leiknum en Laugdælir, stór hluti þeirra sóknarfráköst. Þetta er augljóslega eitthvað sem Laugdælir verða að fara að vinna í, fráköstin. Richard Field átti annars frábæran leik og gat í raun gert það sem hann vildi inn á vellinum. 39 stig, 20 fráköst, 3 stoðsendingar, 3 stuldir og 54 framlagsstig er ekkert til að skammast sín fyrir.
 
Þá eru bæði lið farin í jólafrí og ljóst að Laugdælir verða að herða sig á seinni hluta tímabilsins ef þeir vilja forðast það að falla strax aftur niður í aðra deild. FSu er aftur á móti í góðri stöðu með
7 sigra í 9 leikjum og sitja núna í öðru sæti í deildinni.
 
Laugdælir: Jón Hrafn Baldvinsson 18/10 fráköst/5 stoðsendingar, Sigurður Orri Hafþórsson 18, Anton Kári Kárason 10, Pétur Már Sigurðsson 10, Arnór Yngvi Hermundarson 6, Haukur Már Ólafsson 5,
Bjarni Bjarnason 4/8 fráköst, Helgi Hrafn Ólafsson 4
 
FSu: Richard Field 39/20 fráköst, Orri Jónsson 18, Valur Orri Valsson 14/6 fráköst, Guðmundur Auðunn Gunnarsson 8, Sigurbjörn Jónsson 4, Arnþór Tryggvason 2
 
Ljósmynd/Úr safni: FSu hafði betur á ,,Vatninu” í gær þar sem Richard Field lék lausum hala.
 
Umfjöllun: HHÓ
Fréttir
- Auglýsing -