spot_img
HomeFréttirLauflétt hjá Valskonum

Lauflétt hjá Valskonum

Hvað er að gerast í Grindavík er kannski eðlilegasta spurning kvöldsins. Valur kjöldró Grindavík 87-54 í Domino´s deild kvenna í kvöld. Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 20-5 fyrir Val og algerlega kýrskýrt í hvað stefndi. Linar og áhugalitlar Grindavíkurkonur fengu skell gegn Valsliði sem virðist vera að sækja í sig veðrið enda ekki seinna vænna, stórleikur í bikarnum gegn Snæfell um helgina. Grindvíkingar aftur á móti þurfa að snúa við blaðinu ekki síðar en strax, holningin á hópnum í dag virkaði líkt og óskhyggja um sæti í 1. deild á næstu leiktíð.
 
 
Valur komst í 11-0 í kvöld áður en María Ben Erlingsdóttir gerði fyrstu stig gestanna. Blanca Lutley leikmaður Grindavíkur gerði allt hvað hún gat til að tryggja sér heimsókn í Fríhöfnina á næstu dögum og þrátt fyrir 17 stig í leiknum var hún t.d. 4-13 af vítalínunni og í raun vandræðalegt að fylgjast með frammistöðu hennar í kvöld.
 
Staðan í hálfleik var 45-21 fyrir Val og gat Ágúst Björgvinsson leyft sér þann munað að leyfa öllum leikmönnum liðsins að spreyta sig og náðu 11 þeirra að gera stig í leiknum.
 
Síðari hálfleikur var svo einvörðungu bið eftir lokaflautinu. Stöku rispa sást úr herbúðum gestanna en Valsmenn voru með þetta í vasanum allan tímann þar sem Anna Martin, Hallveig Jónsdóttir og Rut Herner Konráðsdóttir áttu flottar rispur.
 
Lokatölur reyndust svo 87-54 eins og áður greinir og Valskonur í 4. sæti deildarinnar með 16 stig en Grindavík í næstneðsta sæti með 12 stig rétt eins og Hamar í 6. sætinu.
 
Kristrún Sigurjónsdóttir var ekki í Valsliðinu í kvöld sökum bakmeiðsla en Valsmenn vonast til þess að hún verði klár í bikarslaginn um helgina gegn Snæfell.
 
 
  
Fréttir
- Auglýsing -