Keflavíkingurinn Hrannar Hólm hefur verið viðriðinn körfuboltann í ansi mörg ár, fyrst sem leikmaður, síðan þjálfari, m.a. hjá þremur úrvalsdeildarliðum, loks stjórnarmaður og formaður í Keflavík til margra ára, auk þess sem hann starfaði innan KKÍ sem stjórnarmaður og formaður landsliðsnefndar.
Karfan.is setti sig í samband við Hrannar þar sem hann býr í Kaupmannahöfn í dag og er kominn á kaf í körfuboltann þar.
Hvernig finnst þér að vera kominn aftur á fullt í þjálfun, nú í Danmörku?
Hvernig finnst þér að vera kominn aftur á fullt í þjálfun, nú í Danmörku?
Jú, bara flott. Körfuboltinn hefur ávallt verið hluti af tilverunni, en ég viðurkenni fúslega að ég átti ekki von á því að fara að þjálfa aftur. Það bara gerðist fyrir tilviljun, svo að segja, í fyrrahaust. Svo varð árangurinn góður (Hrannar var kjörinn þjálfari ársins af þjálfurum deildarinnar) og ég var beðinn um að halda áfram. Ákvað að gera það og það hefur verið gaman. Það er meira líkt en ólíkt með Danmörku og Íslandi í körfuboltanum þannig að þetta er ekki mikið frábrugðið því sem ég þekki.
Hvernig hefur gengi þíns liðs, SISU, verið í vetur?
Gengið hefur verið ansi gott. Kvennalið SISU er taplaust, enn sem komið er, og mun m.a. leika úrslitaleikinn í bikarnum þann 16. janúar n.k. gegn Åbyhøj. Í deildinni er liðið efst eftir 13 umferðir með 26 stig. Liðið hefur á leiktíðinni unnið alla sína 18 leiki, fimm í bikarnum og 13 í deildinni. Árangurinn hingað til er sem sagt flottur. En það verður þó enginn meistari í desember, því eins og menn vita þá ráðast úrslit í körfuboltanum með vorinu. En gengið er gott og hópurinn öflugur, margir góðir og duglegir leikmenn. Við munum því reyna að halda áfram að vinna leiki eins lengi og veður leyfir.
Nú situr þú einnig í stjórn SISU. Hvernig eru horfurnar hjá félaginu eftir að illa fór fjárhagslega í fyrra?
Horfurnar eru ágætar. Án þess að kafa of mikið ofan í smáatriðin, þá má segja að menn hafi reist sér hurðarrás um öxl eins og stundum gerist. Lagt út í umtalsverðan liðskostnað en ekki náð að hala inn þær tekjur sem vonast var eftir. Töluverðar skuldir höfðu safnast upp. Nýja stjórnin fór í samningaviðræður við skuldareigendur og gekk rösklega í málin. Við breyttum um rekstrarmódel og skárum verulega niður kostnað.
Markmiðið var að losa félagið undan skuldum, koma því í rekstrarhæft ástand og reyna að hanga um miðja deild á meðan, amk ekki falla. Þetta hefur gengið ágætlega, skuldirnar eru nánast allar farnar, reksturinn verður líklega á núllinu í ár og árangurinn í körfunni er umfram væntingar. Stelpurnar í efsta sæti og strákarnir um miðja deild. Reyndar er hópurinn þunnskipaður og fyrrum Keflvíkingurinn Thomas Soltau sem hefur verið okkar besti maður fékk einhvers konar brjósklos í síðasta leik og fjarvera hans getur gert hlutina töluvert erfiðari. En heilt yfir má segja að vel hafi verið starfað og að SISU sem er elsti körfuboltaklúbburinn í Danmörku, stofnaður 1954, sé að komast á fætur á ný.
Hvaða mun sérð þú á danska og íslenska kvennaboltanum, þá út frá deildakeppni, landslið og svo yngri flokkum?
Miðað við það sem ég þekki þá held ég að danska kvennadeildin sé sterkari en sú íslenska. Þar munar mest um stærð og líkamlegan styrk. Ég held að munurinn á tæknilegum hæfileikum eða leikskilningi sé óverulegur eða enginn, en hins vegar er munur á stærð, hraða og líkamsburðum. Til dæmis eru nokkrar liprar og sterkar danskar stúlkur í Dameligaen um og yfir 190 cm. Ég þekki einnig nokkur dæmi um leikmenn sem hafa leikið í báðum deildum og skila þeir almennt betri tölum á Íslandi.
Landsliðið danska yrði líklega sterkara en það íslenska ef þeim tækist að tefla fram sínum sterkustu leikmönnum. Málið er hins vegar það að körfuboltinn er ekki hátt skrifaður hér í Danmörku. Það þýðir að landsliðsþjálfarinn fær yfirleitt ekki allar bestu stelpurnar til þess að taka þátt í prógramminu. Eins og menn vita, þá eru sumrin tímabil landsliðanna og þá vilja margir frekar vera í fríi en í landsliðsprógrammi, sérstaklega ef prógrammið er ekki hátt skrifað.
Varðandi yngri flokka, þá ég kannski ekki sérfræðingur á því sviðinu. Ég veit hins vegar um einn mun á Íslandi og í Danmörku og hann er sá að það er ekki jafn auðvelt að fá Danina til að leggja hart að sér, því stærstur hluti þeirra sem æfa eru að gera það með annað markmið í huga en að verða endilega góðir körfuboltamenn í framtíðinni. Í fyrra var ég t.d. með einn leikmann í mínu liði sem var svakalegur íþróttamaður, hörku player. En hún hafði í raun engan sérstakan áhuga á körfubolta. Pældi aldrei neitt í neinu og vissi aldrei hvernig aðrir leikir í deildinni fóru. Fyrir henni var karfan bara líkamsrækt. En ég hef einnig fylgst vel með liði sonar míns sem er 12 ára og eru þeir ansi sprækir. Ég hef séð að það er til aragrúi af hávöxnum og efnilegum leikmönnum, en svo missa þeir einhvern veginn áhugann, heimturnar eru ekki nógu góðar hér í Danmörku. En munurinn á löndunum er og verður sá að þrátt fyrir að karfan sé lítil íþrótt í Danmörku, þá eru samt 12-14 þúsund iðkendur, en á Íslandi eru þeir 6-7 þúsund.
En karlamegin?
Danir eru ekki stórveldi í körfunni. Í Danmörku hafa menn fyrst og fremst áhuga á fótbolta og hjólreiðum. Og svo er einn góður tennisleikari, einn boxari, smá handbolti og síðan sitt lítið af hverju. Samt eru hér nokkrir góðir leikmenn og nokkur góð félagslið. Ég er til dæmis nokkuð viss um að Danir hafa tekið framúr Íslendingum á s.l. árum hvað félagslið varðar. Ég man að þegar við í Keflavík vorum í Evrópukeppninni fyrir 5-6 árum, þá háðum við marga hildi við Bakken Bears og önnur skandinavísk lið. Þá voru menn tiltölulega jafnir. En ég er efins um að eitthvert íslenskt félgaslið ætti raunhæfa möguleika í Bakken Bears eða Svendborg í dag.
Varðandi landsliðið þá er það eins með karlana og konurnar. Danir ná ekki að nota alla sína bestu leikmenn, einhverra hluta vegna. Landsliðið hefur ekki nægt vægi. Ef ég man rétt þá vann íslenska liðið síðasta leik, enda með Jón Arnór í fínu formi og Hlyn og Frikka Stef undir körfunum. En ef Danir væru með Christofferson, Soltau, Peter Johansen o.fl., þá gæti orðið erfitt undir körfunum fyrir íslenska liðið. Ég myndi segja að munurinn væri ekki mikill og hvort lið sem er gæti unnið, en Danir hafa, eins og flestar aðrar þjóðir, leikmenn sem eru stærri og sterkari en þeir íslensku. Það er þó virkilega gaman að fylgjast með bestu íslensku körfuboltaköppunum standa sig vel á Spáni og í Svíþjóð (og í Danmörku, til skamms tíma). Slíkt styrkir klárlega landsliðið, en við munum því miður ekki gera neinar rósir á alþjóðlegum vettvangi fyrr en við eignumst stærri og sterkari leikmenn.
Nú hefur þú verið bæði í kvenna- og karlakörfubolta, hver er helsti munurinn og hvað getur kvennaboltinn gert til að verða vinsælli?
Menn gleyma stundum að munurinn á stærð, krafti og líkamsburðum milli karla og kvenna er gríðarlegur. Meðal körfuboltamaður er kannski 20 cm hærri en meðal körfuboltakona, þar að auki hefur hann lengri hendur, stekkur hærra og hleypur hraðar. En samt eru karlar og konur að leika á jafn háar körfur. Meðan svo er getur kvennaboltinn aldrei orðið jafn flottur fyrir augað. Stelpurnar hafa, að mér finnst, oft betri taktískan brag á sínum leik og leika oft betur saman, eru óeigingjarnari. En það er bara of erfitt að skora. Eftir að 3ja stiga línan var færð aftar (gerðist s.l. haust í Danmörku) þá dettur hittnin niður um ca 5% sem er leiðinlegt. Menn þurfa að sníða reglurnar eftir leikmönnunum, hafa 3ja stiga línuna nær og körfurnar lægri. Þá færist meira fjör í leikinn. Í kvennablaki, sem er brillíant íþrótt og engu síðri en karlablak, þá er netið lægra og þær takast á við sömu erfiðleika og karlarnir miðað við líkamsburði. Niðurstaðan er flottur leikur. En þrátt fyrir þessa annmarka á regluverkinu í körfunni þá getur kvennakörfubolti verið sérlega skemmtilegur og spennandi vegna baráttunnar og liðsboltans sem er leikinn.
Hefur þú fylgst með Iceland Express deildunum í vetur? Hefur eitthvað komið þér á óvart í þeim deildum?
Já, ég fylgist ávallt með íslenska boltanum og held góðu sambandi við góða félaga mína, þeirra á meðal eðalþjálfarana Gaua Skúla í Kef og Sigga Ingimundar í Njarðvík. Það er kannski tvennt sem hefur komið á óvart í vetur, annars vegar slæmt gengi Njarðvíkur framan af, og hins vegar mögnuð velgengni Snæfells. Það er eins og að þeir séu ekki ennþá búnir að fatta að Hlynur og Siggi séu ekki lengur að spila. Held reyndar að það séu fjögur til fimm lið sem muni eiga góðan séns á titlinum í vor, Snæfell, Grindavík, KR og Keflavík. Og einnig Njarðvík ef þeir finna taktinn. Og svo vinnur Keflavík 🙂
Hjá stelpunum er greinilegt að getumunurinn innan deildarinnar er all svakalegur. Munurinn á bestu og lökustu liðunum er meiri en gera mætti ráð fyrir í einni og sömu litlu deildinni. En það er kannski ekkert nýtt, það virðist hreinlega vera erfitt á Íslandi að halda úti átta liða kvennadeild sem hefur þokkalegan styrkleika. Bestu liðin hafa þó flotta leikmenn og eru að standa sig vel. Allt bendir auðvitað til þess að Keflavík og Hamar muni berjast um gullið, spurning hvort KR og Haukar nái að blanda sér í baráttuna. Og svo vinnur Keflavík 🙂
Eitthvað að lokum, Hrannar?
Ekkert nema gleðileg jól, auðvitað. Sendi körfuboltamönnum á Íslandi bestu kveðjur með von um dugnað og góðan árangur á næsta ári.
Við þökkum Hrannari kærlega fyrir spjallið og óskum honum góðs gengis í landi Margrétar Þórhildar.
Mynd: Úr einkasafni Hrannars Hólms




