spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaLaskað lið Hauka tók forystuna gegn Þór í Ólafssal

Laskað lið Hauka tók forystuna gegn Þór í Ólafssal

Haukar lögðu Þór í þriðja leik 8 liða úrslita Subway deildar karla í Ólafssal í kvöld, 104-90.

Haukar hafa því náð yfirhöndinni í einvíginu 2-1 0g geta með sigri komandi laugardag í Þorlákshöfn tryggt sig áfram í undanúrslitin.

Fyrir leiks

Liðin höfðu skipt með sér sigrum í fyrstu tveimur leikjum einvígissins, 1-1. Haukar unnu heima í Hafnarfirði í fyrsta leik áður en Þór náði að jafna metin í Þorlákshöfn í leik tvö.

Stóra spurningin fyrir þennan leik var að hvaða leyti heimamenn í Haukum gætu bætt upp fyrir fjarveru tveggja lykilmanna sinna í þessum leik, en bæði voru miðherji þeirra Norbertas Giga og bakvörðurinn Darwin Davis frá vegna meiðsla í kvöld.

Gangur leiks

Þrátt fyrir að í lið þeirra vantaði stóra pósta komu heimamenn ansi vel gíraðir til leiks og eftir nokkuð jafnar upphafsmínútur ná þeir að skapa sér þægilega 11 stiga forystu fyrir annan leikhlutann, 32-21. Þórsarar ná góðu áhlaupi í upphafi annars fjórðungs og eru búnir að jafna metin eftir aðeins þriggja mínútna leik í leikhlutanum, 37-37. Haukar ná að svara því áhlaupi og ná áfram að halda í forystuna inn til búningsherbergja í hálfleik, 55-50.

Stigahæstur fyrir Hauka í fyrri hálfleiknum var Daniel Mortensen með 16 stig á meðan Fotios Lampropoulos var kominn með 19 stig fyrir Þór.

Þrátt fyrir álitlegt áhlaup Þórs í upphafi þriðja leikhlutans hanga heimamenn á forystunni vel inn í seinni hálfleikinn. Þórsarar þó aldrei langt undan, en forysta Hauka fyrir lokaleikhlutann er 6 stig, 81-75. Eitthvað var farið að bera á villuvandræðum hjá báðum liðum eftir fyrstu þrjá leikhlutana. Hjá Haukum var Breky Gylfason með fjórar líkt og Emil Karel Einarsson hjá Þór.

Haukar eru svo áfram skrefinu á undan inn í fjórða leikhlutann. Þar sem þeir leiða með 6 stigum þegar 5 mínútur eru til leiksloka, 89-83. Undir lok leiksins ná þeir svo að halda sér í þægilegri fjarlægð frá gestunum og sigra leikinn að lokum með 14 stigum, 104-90.

Atkvæðamestir

Daniel Mortensen var atkvæðamestur í liði Hauka í kvöld með 21 stig, 11 fráköst og 5 stoðsendingar. Fyrir Þór var það Fotios Lampropoulos sem dró vagninn með 23 stigum og 4 fráköstum.

Hvað svo?

Næsti leikur einvígis liðanna er komandi laugardag 15. apríl kl. 20:15 í Þorlákshöfn.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -