Lárus Jónsson fyrrum leikmaður Hamars í Hveragerði mun leika með Njarðvíkingum á næsta tímabili. Þetta staðfesti leikmaðurinn við Karfan.is og kvaðst spenntur að koma aftur í íslenska boltann.
Lárus hefur verið í námi erlendis en hefur nú lokið því og kom til landsins fyrr í sumar. Fyrrum lið hans Hamar vildu einnig fá kappann en að lokum valdi hann að fara til Njarðvíkur. ,,Þetta er svo gott sem klappað og klárt og ég mun leika með Njarðvík næsta vetur. Þetta er eins árs samningur sem ég geri við Njarðvíkinga og þetta er bara spennandi verkefni."
En hversvegna valdi Lárus Njarðvík?
,,Það er svo sem einfalt, mig langaði að spila með liði sem á möguleika að vinna titla. Svo átti Sigurður þjálfari einnig stóran þátt í þessu en hann er líkast til einn besti þjálfari landsins sem stendur," sagði Lárus í samtali við Karfan.is
Vissulega er þetta hvalreki fyrir þá Njarðvíkinga sem hafa verið í tómu basli leikstjórnenda stöðuna og ólíklegustu menn þurftu að gegna þeirri stöðu í fyrra.



