spot_img
HomeFréttirLárus eftir leikinn í Grindavík "Það er engan bilbug að finna á...

Lárus eftir leikinn í Grindavík “Það er engan bilbug að finna á okkur”

Það var allur körfuboltapakkinn í boði í Grindavík í kvöld þegar heimamenn unnu sigur á Íslandsmeisturum Þór úr Þorlákshöfn, 86 – 85, í öðrum leik liðanna í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Staðan er því jöfn og báðir leikirnir hafa verið spennandi og skemmtilegir.

Lárus Jónsson þjálfari Þórsara bar sig vel eftir leik þrátt fyrir naumt tap og óskaði Grindvíkingum til hamingju með sigurinn, enda er Lárus annálaður heiðursmaður.


“Ég er satt best að segja ekkert óánægður með framlag leikmanna minna hér í kvöld; það lögðu allir sig fram og ég er bara ekki frá því að við höfum spilað betur í kvöld en í síðasta leik þótt þessi hafi tapast en hinn unnist.”


Lárus segir að þessi orrusta Grindvíkinga og Þórsara hafi alls ekki komið honum á óvart hingað til.


“Það eru bara orðin svo mörg góð lið í deildinni og enginn getur gengið að nokkru vísu. Við vissum það að Grindvíkingar myndu berjast eins og ljón, og þá eru þeir einfaldlega með mjög gott lið sem erfitt er við að eiga. Nú förum við heim og jöfnum okkur á þessu tapi og það er engan bilbug að finna á okkur; við ætlum að gera allt sem við getum til að vinna næsta leik og ég hef fulla trú á mínum mönnum.”

Fréttir
- Auglýsing -