spot_img
HomeFréttirLangþráður Blikasigur í hús (Umfjöllun)

Langþráður Blikasigur í hús (Umfjöllun)

 
Breiðablik vann langþráðan sigur á Ármanni í kvöld í Smáranum, 100-82, eftir fjóra stigalausa leiki undanfarið og unnu þar með sinn annan leik í 1. deildinni í vetur. Staðan var í hálfleik, 55-42. Með sigrinum þokuðust Kópavogspiltar upp að hlið Ármenninga og sveima nú bæði liðin með fjögur stig í 5.-8. sæti deildarinnar ásamt Laugvetningum og Völsurum.
Gestirnir úr Ármanni hófu leikinn kröftuglega og leiddu í upphafi. Antonio Houston var sprækur í 1. leikhluta sóknarlega á meðan Blikar voru stressaðir og engu líkara en þeir ætluðu að skora 4-6 stig í hverri sókn. Heimamenn hresstust þó aðeins undir lok leikhlutans og náðu að jafna 26-26 og þegar Rögnvaldur og Jón Þór dómarar flautuðu eftir 10 mínútna leik var staðan 28-27, Blikum í vil.
 
Um miðbik 2. leikhluta lögðu Blikar grunninn að sigri sínum. Þeir breyttu stöðunni úr 35-34 í 55-42, eftir um 5 mínútna leik í leikhlutanum, náðu flottri 20-8 rispu og við það réðu Ármenningar ekki. Blikar börðust betur og bættu sendingar sínar aukinheldur sem hraðinn var aukinn í leiknum. Blikar gerðu 55 stig á 20 mínútum en stigaskor hefur ekki verið þeirra tebolli í vetur.
 
Í upphafi seinni hálfleiks reyndu Ármenningar að bíta frá sér og tókst það aðeins. Þeir náðu forskotinu niður hinn sálfræðilega 10 stiga mun, í 55-46, og svo aftur 68-62 en lengra var þeim ekki hleypt að þessu sinni á þeim iðjagræna. Blikar voru einbeittir og var gaman að sjá baráttuna og viljann í öllum leikmönnum. Ármenningar hittu einfaldlega fyrir ofjarla sína að þessu sinni auk þess sem varnarleikur þeirra var ekki til útflutnings. Allt of oft áttu Blikar frí sniðskot undir körfunni sem þeir létu ekki bjóða sér tvisvar. Gestirnir töpuðu einnig frákastastríðinu í leiknum aukinheldur sem þriggja stiga nýting þeirra var slök.
 
Sæbi þjálfari Blikar gaf ungum og uppöldum strákum mun meiri spilatíma en áður og þökkuðu þeir honum traustið með afbragðsleik. Allt annað var að sjá til liðsins heldur en undanfarið og greinilegt að þjálfarinn er að ná að slípa liðið saman. Atkvæðamestur var Nick Brady með 24 stig og Steini náðu í tvennu, 22 stig og 14 fráköst. Annars komust allir vel frá leiknum og sérlega gaman var að sjá baráttuna í ungu piltunum.
 
Hjá Ármanni var Houston í aðalhlutverki í sókninni og skilaði 24 stigum. Hann reyndi mikið og hefði að ósekju mátt gefa boltann meira. Þá var gaman að sjá tvo gamla Blika stíga aftur á stokk í Smáranum, þá Odd Jóhanns og Dóra Kristmanns og áttu þeir lipra spretti.
 
Heildarskor:
 
Breiðablik: Nick Brady 24, Arnar Pétursson 22/7 fráköst/6 stoðsendingar, Þorsteinn Gunnlaugsson 22/14 fráköst, Steinar Arason 10, Atli Örn Gunnarsson 8/5 fráköst, Ágúst Orrason 5, Hraunar Karl Guðmundsson 4/4 fráköst, Ívar Örn Hákonarson 3, Aðalsteinn Pálsson 2/5 fráköst/6 stoðsendingar, Hákon Bjarnason 0/5 fráköst, Hjalti Már Ólafsson 0, Helgi Freyr Jóhannsson 0.
 
Ármann: Antonio Houston 24/9 fráköst, Sverrir Kári Karlsson 18/4 fráköst, Þorsteinn Húnfjörð 9/4 fráköst, Halldór Kristmannsson 8, Halldór Haukur Sigurðsson 6, Oddur Jóhannsson 6, Egill Vignisson 5, Helgi Hrafn Þorláksson 2, Steinar Aronsson 2, Geir Þorvaldsson 1, Aron Kárason 1, Hermann M. Maggýarson 0.
 
Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson og Jón Þór
 
Umfjöllun: Gylfi Freyr Gröndal
 
Ljósmynd/ Úr safni
Fréttir
- Auglýsing -