Botnslagur Domino´s deildarinnar fór fram í Borgarnesi í kvöld en þar mættust stigalaus lið Skallagríms og Fjölnis og ljóst að um hörkuleik yrði að ræða. Framlengja varð baráttu liðanna sem lauk með sigri Fjölnis, 110-113. Tracy Smith landaði tröllatvennu í liði Skallagríms með 44 stig og 10 fráköst en Arnþór Freyr Guðmundsson gerði 28 stig og gaf 6 stoðsendingar í liði Fjölnis.
„Þessi sigur var mjög kærkominn,“ sagði Hjalti Vilhjálmsson þjálfari Fjölnis við Karfan.is eftir leikinn í kvöld. „Þetta var alvöru leikur og mér fannst bara bæði lið spila mjög vel en þetta var samt svolítið upp og niður.“
Borgnesingar leiddu 94-91 þegar 19 sekúndur voru til leiksloka en brutu svo á Fjölnismönnum í þriggja stiga skoti þegar 10 sekúndur lifðu leiks. Gestirnir minnkuðu muninn í 94-93. Skallagrímsmenn komust í 95-93 á vítalínunni aðeins sekúndu síðar en það var svo Daron Sims sem jafnaði 95-95 fyrir Fjölni þegar sekúnda lifði leiks og framlengja varð leikinn.
Liðin slógu ekki slöku við í framlengingunni sem fór 15-18 fyrir Fjölni en með sex sekúndur til leiksloka kom Róbert Sigurðsson Fjölni í 110-113 á vítalínunni. Seinna vítið vildi ekki niður, Tracy Smith tók frákastið og lokaskot Skallagríms fyrir annarri framlengingu vildi ekki niður og Fjölnir fagnaði sigri.
„Við tókum okkur aðeins saman í andlitinu og notuðum alla vikuna í það. Við unnum markvisst í okkar sóknar- og varnarleik, sérstaklega í sóknarleiknum eins og sést á lokatölunum. Það var mun meira jafnvægi í okkar leik núna en gegn ÍR enda er þetta langbesti leikurinn okkar á tímabilinu til þessa,“ sagði Hjalti við Karfan.is.
„Tracy og Sigtryggur gerðu okkur lífið leitt alveg villt og galið en með þessum sigri okkar kemur sjálfstraust. Við höldum nú bara áfram að vinna í okkar málum og þá verðum við flottir enda höfum við fulla trú á þessu.
Mynd/ Ómar Örn Ragnarsson – Daði Berg Grétarsson leikmaður Skallagríms sækir að vörn Fjölnismanna í kvöld en Borgnesingar voru án Páls Axels Vilbergssonar annan leikinn í röð.



