Kristinn Pálsson mun yfirgefa bikarmeistara Vals og ganga til liðs við Aurora á Ítalíu fyrir komandi tímabil samkvæmt heimildum mbl.
Kristinn er 27 ára og hefur á síðustu árum verið fastamaður í íslenska landsliðinu, sem og einn besti leikmaður efstu deildar á Íslandi. Var hann árið 2024 valinn besti leikmaður úrvalsdeildarinnar.

Aurora leikur í ítölsku þriðju deildinni, en Kristinn er ítölskum körfubolta kunnur, eftir að hafa verið á sínum tíma í nokkur ár með yngri flokkum Stella Azzurra.
Eftir að hafa verið úti á Ítalíu sem yngri leikmaður fór hann til Marist í bandaríska háskólaboltanum. Á Íslandi hefur hann leikið fyrir Njarðvík, Grindavík og Val og þá hefur hann verið með Aris Leeuwarden í belgísk/hollensku BNXT deildinni.
Íslenskir aðdáendur muna væntanlega eftir stórleik sem Kristinn átti með íslenska landsliðinu í sigri þeirra gegn því ítalska í síðustu undankeppni EuroBasket. Fyrir þann leik minntist Kristinn á tungumálahæfileika sína, en viðtalið má sjá hér fyrir neðan.



