spot_img
HomeFréttirLakers unnu fyrsta leikinn í úrslitum - Celtics áttu ekki séns

Lakers unnu fyrsta leikinn í úrslitum – Celtics áttu ekki séns

LA Lakers hefja titilvörn sína af miklum krafti en þeir yfirspiluðu Boston Celtics í fyrsta leik liðanna í úrslitum NBA í nótt og sigruðu 102-89 í Staples Center.
 
Fyrirfram var búist við hörkuleik og sviku liðin ekki til að byrja með því að Ron Artest og Paul Pierce fengu hvor sína tæknivilluna fyrir ryskingar strax á fyrstu mínútu leiksins.
 
Þessi frægustu og sigursælustu lið NBA hafa marga hildina háð og það verður ekkert gefið eftir að þessu sinni. Celtics hafa á sér orð fyrir hörku og fasta spilamennsku, en máttu sín lítils gegn Lakers, sem eru ekki búnir að gleyma rassskellingunni sem þeir fengu frá Kevin Garnett og félögum í úrslitunum 2008.
 
Pau Gasol lék sérstaklega eins og hann hefði mikið að sanna, en vörn Lakers og seigla í fráköstum var lykillinn að þessum sigri.
 
Lakers voru með frumkvæðið allt frá upphafi og leiddu með níu stigum í hálfleik, 50-41, eftir að Rajon Rondo minnkaði muninn með flautukörfu. Meistararnir gerðu svo út um leikinn undir lok þriðja leikhluta þar sem Kobe fór fyrir sínum mönnum á 11-2 kafla sem skilaði þeim 20 stiga forskoti, 84-64, inn í lokafjórðunginn.
 
Kobe var við sama heygarðshornið og skoraði 30 stig, Gasol var með 23 stig og 14 fráköst, Artest var með 15 stig og Andrew Bynum skilaði 10 stigum þrátt fyrir að leika með erfið hnémeiðsli.
 
Hjá Boston var Pierce með 24 stig, Garnett með 16, Rondo með 13 og Ray Allen með aðeins 12 á takmörkuðum leiktíma sökum villuvandræða, en hann átti í tómum vandræðum með Kobe Bryant í vörninni.
 
Lakers voru sáttir við sigurinn, ekki síst Gasol. „Ég vissi að þetta yrði mikil barátta, það var augljóst, en eftir að fara í úrslit síðustu tvö ár skiljum við hvað þetta gengur út á. Við skiljum andstæðinga okkar og hvernig þeir leika. Þú verður að vera tilbúinn til að keppa og leika af eins mikilli baráttu til að ná árangri.“
 
Doc Rivers, þjálfari Celtics, var hins vegar ekki eins ánægður, eins og við mátti búast.
 
„Þeir voru miklu harðari en við. Þeir voru grimmari og keyrðu á okkur allt kvöldið og við höndluðum það bara ekki vel.“
 
Rivers getur þó huggað sig við að hans menn eiga enn mikið inni og þetta var aðeins fyrsti leikurinn.
 
>Lakers höfðu betur í fráköstunum, 42-31, sem gaf þeim mikið af auðveldum stigum úr hraðaupphlaupum.
 
>Phil Jackson hefur unnið hverja einustu rimmu í úrslitakeppni á ferli sínum þar sem hann vinnur fyrsta leikinn, alls 47-0.
 
>Dómarar dæmdu uppkast eftir baráttu Pau Gasol (213 sm) og Nate Robinson (175 sm) um boltann. Gasol vann uppkastið
 
 
Fréttir
- Auglýsing -