spot_img
HomeFréttirLakers tryggðu oddaleik með öruggum sigri

Lakers tryggðu oddaleik með öruggum sigri

Úrslit NBA munu ráðast í oddaleik á fimmtudag eftir sannfærandi heimasigur meistara LA Lakers á erkifjendum sínum, Boston Celtics, í nótt, 89-67. Eftir að hafa lent undir 3-2 var allt tímabilið undir í þessum leik, en Kobe Bryant og félagar vissu hvað þurfti til og lokuðu gjörsamlega á Celtics frá fyrstu stundu.
 
Eftir þrjá leiki í Boston þar sem Kobe bar miklar byrðar á meðan félagar hans voru eins og farþegar, tóku allir við sér og allir skiluðu sínu. Celtics komust aldrei í gang í leiknum og voru þessi 67 stig þeirra það næst-lægsta sem nokkuð lið hefur skorað í úrslitarimmu frá upphafi.
 
Ekki var það að hjálpa Celtics að miðherjinn öflugi Kendrick Perkins meiddist í fyrsta leikhluta, en það var ekki afsökun fyrir slakri frammistöðu í sóknarleiknum þar sem enginn náði sér á strik, hvorki stjörnurnar í byrjunarliðinu né mennirnir á bekknum.
 
Bekkurinn hjá Lakers var á meðan að skila sínu ólíkt því sem gerðist í síðustu fjórum leikjum, en framlag þeirra skipti lykilmáli í þessum leik þar sem heimamenn náðu 22ja stiga forskoti strax í fyrri hálfleik.
 
Kobe var með 29 stig og 11 fráköst, Pau Gasol var með 17 stig og 13 fráköst og Ron Artest, sem hefur verið fyrirsjáanlega óútreiknanlegur í þessari rimmu, átti gott kvöld með 15 stig, þar af þrjár 3ja stiga körfur.
 
Hjá Celtics var Ray Allen með 19 stig, Paul Pierce 13 og Kevin Garnett 12, en enginn þeirra komst á flug í leiknum.
 
Því halda þessi fornfrægu lið í enn eina sögulega stundina þar sem úrslit ráðast á fimmtudag. Boston eru að reyna að landa sínum átjánda NBA titli, Lakers sínum sextánda, Phil Jackson sínum ellefta sem þjálfari og Kobe sínum fimmta.
 
Eins einkennilega og það hljómar, hefur Jackson á sínum langa ferli aldrei þjálfað lið í oddaleik úrslitanna, en miklar það varla fyrir sér. Þetta er auk þess í fyrsta sinn í fimm ár sem úrslitin fara í sjö leiki og verður mögnuð viðureign sama hvernig fer.
 
 
Mynd/AP Jordan Farmar átti góðan leik af bekknum
Fréttir
- Auglýsing -