09:04:34
LA Lakers lögðu erkifjendur sína í Boston Celtics að velli í nótt, 110-109 , eftir framlengdan leik sem einkenndist af mikilli baráttu. Lakers bundu þar með enda á 12 leikja sigurgöngu Boston, en þeir sigruðu líka í fyrri viðureign liðanna, sem fór fram í LA á Jóladag.
Þetta var í fysta sinn sem Lakers komu til Boston síðan þeir töpuðu fyrir Celtics í úrslitaeinvíginu um NBA-titilinn í fyrra. Þar voru þeir eins og smábörn í höndunum á Boston, en nú var ekkert gefið eftir og barist út um allan völl.
Leikurinn var í járnum allan tímann, en Boston var lengst af með yfirhöndina í seinni hálfleik. Kobe Bryant kom sínum mönnum þó yfir, en Paul Pierce jafnaði úr víti, 101-101, þegar hálf mínúta var eftir.
Í framlengingunni kom Gasol Lakers yfir með tveimur vítum, Glen Davis svaraði fyrir Boston og kom þeim í 109-108. Davis braut svo á Lamar Odom sem setti bæði vítin þegar 16 sek voru til leiksloka. Það var svo eitilhörð vörn sem kom í veg fyrir að Paul Pierce aða Ray Allen næðu góðu skoti á körfuna og Lakers fögnuðu sætum sigri.
Kobe Bryant var með 26 stig og 10 fráköst fyrir Lakers, en þeirra besti maður í þessum leik var Pau Gasol, sem var með 24 stig og 14 fráköst. Hann hefur notið sín í miðherjahlutverkinu sem hann tók við eftir að Andrew Bynum meiddist og er með nær 30 stig að meðaltali í leik, auk um 15 frákasta í þremur leikjum sem allir hafa unnist. Loks má ekki gleyma framlagi Lamar Odom sem var með 20 stig.
Hjá Boston var Ray Allen með 22 stig, Pierce með 21 og Kevin Garnett var með 16 stig, en hann fór á bekkinn með 6 villur þegar stutt var eftir af venjulegum leiktíma.
Lakers eru eftir þennan sigur aðeins hærri en Boston í vinningshlutfalli, en meistararnir eru örugglega að vona að þetta tap slái þá ekki út af laginu eins og jólatapið. Eftir að hafa unnið 19 leiki í röð töpuðu þeir í LA og alls sjö af níu leikjum áður en þeir komust aftur á beinu brautina.
Lakers fá ekki síður erfitt verkefni á sunnudag þegar þeir sækja Cleveland Cavaliers heim, og freista þess þar að vinna sinn sjötta leik í röð. Boston fær gott tækifæri til að komast aftur á beinu brautina í kvöld þegar þeir mæta NY Knicks.
Tveir aðrir leikir fóru fram í nótt þar sem Philadelphia vann Indiana, 99-94 , og Utah rústaði Dallas, 115-87 , þar sem Deron Williams fór hamförum með 34 stig og 12 stoðsendingar.
ÞJ



