10:06:30
LA Lakers komu sigri hrósandi út úr fyrsta stórleik þar sem þeir mættu meisturum Boston í nótt, en liðin mættust einmitt í úrslitum NBA í vor þar sem Bostson hafði betur í 6 leikjum og niðurlægði Lakers í síðasta leiknum. Kobe Bryant og Lakers hefur sviðið þetta í sex mánuði og náðu nú loksins að svara fyrir sig.
Fjórir aðrir leikir fóru fram í nótt þar sem Orlando rústaði New Orleans Hornets þrátt fyrir að eiga afleitan seinni hálfleik. San Antonio vann Phoenix þar sem úrslitin réðust með 3ja stiga körfu Rogers Mason um leið og lokaflautið gall. Cleveland er enn á fljúgandi ferð þar sem þeir lögðu Washington og Dallas hélt uppteknum hætti með góðum sigri á Portland.
Nánar hér að neðan…
LA Lakers – Boston Celtics 92-83
Það er ekki ofsögum sagt að Lakers hafi beðið lengi eftir að fá að svara fyrir sig eftir tapið í úrslitum fyrir um hálfu ári síðan þar sem þeir töpuðu í sjötta leik með tæplega fjörutíu stiga mun.
Það tókst þeim loks í fyrsta leik liðanna síðan þá er þeir lögðu Boston að velli, 92-83, á sínum heimavelli. Leikurinn var frábær skemmtun þrátt fyrir að einkennast af mikilli baráttu og var spennandi allan tímann.
Kobe Bryant og Pau Gasol drógu vagninn fyrir Lakers, sérstaklega á lokasprettinum. Lakers voru sex stigum yfir í hálfleik, en höfðu misst Boston eilítið fram úr sér áður en þeir settu í lás. Kevin Garnett kom Boston í 81-79 með troðslu þegar um fjórar mínútur voru eftir af leiknum, en þá sögðu Lakers hingað og ekki lengra. Þeir tóku öll völd og kláruðu leikinn með 13-2 kafla sem batt enda á 15 leikja sigurhringu Boston, sem hafði byrjað betur (27-2) en nokkuð annað lið miðað við tvö töp. Lakers höfðu einnig byrjað mjög vel en lentu í tómum vandræðum á síðustu útileikjaröð og töpuðu tveimur af fjórum leikjum fyrir þessa viðureign.
Eins og áður áður sagði voru það Bryant (27/9/5) og Gasol (20/3/5) sem fóru fyrir Lakers, en Lamar Odom og Sasha Vujacic voru líka með 10 stig hvor.
Hjá Boston var Garnett með 22 stig, Paul Pierce með 20 og Ray Allen með 14, en tveir síðastnefndu brugðust á lokakaflanum.
Þessi sigur markaði líka tímamót að því leyti að Phil Jackson, þjálfari Lakers, komst með honum upp í 1000 sigra á ferlinum. Hann var fljótastur allra til að ná þessum áfanga, í 1.423 leikjum, hann bætti met Pat Rileys um 11 leiki.
Phoenix Suns – San Antonio Spurs
San Antonio tyllti sér í toppsæti Suð-Vesturriðilsins með góðum sigri á Phoenix Suns í nótt, 90-91.
Phoenix voru sterkari framan af þar sem þeir komust í 11-0 og héldu þeirri forystu allt fram í þriðja leikhluta. Suns leiddu svo 76-71 fyrir síðasta leikhlutann.
Þar komust Spurs aftur yfir, mest 88-84 þegar þrjár og hálf mínúta voru til leiksloka. Stig frá Jason Richardson og Steve Nash jöfnuðu leikinn og svo kom hinn gamalreyndi Grant Hill Suns yfir, 90-88 með laglegri sókn þegar 4,3 sekúndur voru til leiksloka.
Gregg Popovic, þjálfari Spurs, setti þá inn á Roger nokkurn Mason, hann er frábær skytta sem hafði samt ekki átt mjög góðan leik.
Síðasta sóknin var þó miðuð að því að Tony Parker keyrði upp að körfunni. Hann braust framhjá Hill, en það varð til þess að Richardson yfirgaf sinn mann, Mason, í horninu til að aðstoða. Parker sá færið og sendi á Mason sem lét ekki bjóða sér þetta færi tvisvar og hamraði þennan líka líkkistunaglann um leið og flautið gall.+
Parker (27/3/8) og Duncan (25/17) leiddu Spurs að venju, en Michael Finley bætti við 12 stigum og Manu Ginobili 11.
Hjá Suns var það Amare Stoudamire sem leiddi hópinn með 25 stigum og 13 fráköstum. Hinir síungu Shaquille O‘Neal (23/12), Grant Hill (16 stig) og Steve Nash (13/4/8) komu þar á eftir og Richardson var með 11.
Úrslit næturinnar:
New Orleans 68
Orlando 88
San Antonio 91
Phoenix 90
Boston 83
LA Lakers 92
Washington 89
Cleveland 93
Dallas 102
Portland 94
Tölfræði leikjanna
ÞJ



