09:27:25
Tvenn óvænt úrslit litu dagsins ljós í NBA-boltanum í nótt þar sem LA Lakers tapaði gegn Charlotte Bobcats og Oklahoma City Thunder vann San Antonio Spurs.
Raunar ætti tap Lakers ekki að koma á óvart, því þeir hafa tapað sex af síðustu sjö leikjum gegn Charlotte síðustu fjögur árin. Þetta var sögulegur leikur að ýmsu leyti því að þarna unnu Bobcats sinn 34. sigur á leiktíðinni, en því hafa þeir aldrei náð á fimm ára ferli þeirra í deildinni. Þetta var annað tap Lakers í röð en þeir ljúka erfiðri sjö leikja útitörn í Milwaukee á morgun.
Þá er sigur Oklahoma á SA Spurs ekki heldur illtrúanlegur því að þó að Oklahoma sé með fimmta versta árangurinn í NBA og óreyndasta mannskapinn, unnu þeir stórlið Spurs fyrir rúmum tveimur vikum. Skemmtileg staðreynd er sú að Tim Duncan, aðalstjarna Spurs, hefur leikið fleiri ár í NBA (11) en allt byrjunarlið Thunder til samans (8).
Reynslan var þó ekki að skila sér í þessum leik þar sem Duncan hefði getað tekið leikhlé fyrir síðustu sókn Spurs til að stilla upp í sókn og vinna upp eins stigs mun, en gerði það ekki og sóknin misfórst.
Spurs missti þannig annað sætið í vestrinu til Denver Nuggets, en röð allra liða fyrir neðan Lakers getur kollvarpast á þeim þremur vikum sem eftir eru af tímabilinu.
Á meðan unnu LeBron James og Cleveland Cavaliers góðan sigur á Detroit og hafa því unnið 13 leiki í röð. Þeir eru með tveggja sigra forskot á LA Lakers í baráttunni um besta áragnurinn í NBA og heimavallarrétt í úrslitum ef til þess kemur.
Hér eru úrslit næturinnar
Atlanta 85 – Philadelphia 98
Chicago 105 – Indiana 107
Detroit 73 – Cleveland 79
LA Lakers 84 – Charlotte 94
Dallas 108 – Minnesota 88
Oklahoma City 96 – San Antonio 95
New York 104 – Denver 111
New Orleans – 111 Sacramento 110
Utah 104 – Portland 125
ÞJ



