spot_img
HomeFréttirLakers og Spurs sluppu vel

Lakers og Spurs sluppu vel

09:22:33
{mosimage}Lakers, San Antonio, Memphis og New Orleans unnu öll leiki sína í NBA-boltanum í nótt. Lakers lögðu hina lánlausu Minnesota Timberwolves, og halda í við Boston, þó þessi sigur muni seint fara í metabækurnar, og sömuleiðis þurftu Spurs að treysta á Manu Ginobilli til að tryggja sigur á versta liði deildarinnar.

Nánar hér að neðan:
Lakers – Minnesota

Kobe Bryant skoraði 26 stig í sigri LA Lakers á Minnesota, 86-98, og þurfti ásamt Pau Gasol að koma inn af bekknum í fjórða leikhluta til að klára leikinn. Lakers voru ekki beint að sýna sínar bestu hliðar frekar en þeir hafa gert að undanförnu. Sjö af síðustu átta leikjum þeirra voru gegn liðum með neikvætt vinningshlutfall, og töpuðust tveir af þeim, gegn Sacramento og Indiana.

Lakers hafa engu að síður enn besta hlutfall allra liða sem leika ekki í grænu.

Memphis – Miami

OJ Mayo átti góðan leik fyrir Memphis Grizzlies sem lagði Miami Heat að velli, 102-86. Mayo, sem ætlar greinilega að láta Derrick Rose hafa fyrir því að vinna nýliðaverðlaunin, var með 28 stig og hitti úr öllum fjórum 3ja stiga skotum sínum, en næstur honum í Memphis-liðinu var Rudy Gay með 18 stig.

Annar nýliði, Michael Beasley, var stigahæstur Miami með 20 stig, en Memphis var alltaf rétt á undan þar til þeir tóku leikinn í sínar hendur í þriðja leikhluta og kláruðu hann vel.

Toronto – New Orleans

New Orleans Hornets unnu góðan sigur á Toronto Raptors, 99-91, þar sem James nokkur Posey kom sterkur inn þegar Chris Paul var tekinn úr umferð. Paul fann Posey hvað eftir annað og setti upp fyrir hann fimm 3ja stiga körfur í fyrri hálfleik. Posey skoraði 20 stig í leiknum og tók líka 10 fráköst og þá var David West drjúgur með 29 stig. Hjá Toronto var Chris Bosh með 25 stig og José Calderon með 22.

Í leiknum jafnaði Chris Paul með Alvins Robertson, en hann hefur nú stolið a.m.k. einum bolta í 104 leikjum í röð og getur bætt metið í næsta leik.

San Antonio – Oklahoma

San Antonio stóð af sér áhlaup Kevins Durant og félaga í Oklahoma Thunder og vann 6. leikinn í röð, 109-104. Thunder, sem hafa nú tapað 7 leikjum í röð unnu upp 26 stiga forskot San Antonio, en Manu Ginobili var traustur á lokasprettinum og setti körfu og víti að auki til að tryggja sigurinn.

Tony Parker og Tim Duncan fóru fyrir sínum mönnum eins og fyrri daginn, en miðherjinn Matt Bonner átti líka góðan leik og gerði m.a. þrjár 3ja stiga körfur.

Jeff Green var með 33 stig fyrir Thunder og Durant 28 og 13 fráköst.

Oklahoma er enn með versta árangurinn í deildinni, 2-23, sem einhver sá versti árangur sem um getur. Þarf mikið að gerast á þeim bænum til að snúa hlutunum við og nú er í rauninni ekkert að spila um hjá þeim nema sjálfsvirðingin.

Tölfræði leikjanna

ÞJ

Fréttir
- Auglýsing -