spot_img
HomeFréttirLakers og Boston í sérklassa

Lakers og Boston í sérklassa

10:01:06
 Það má með sanni segja að Lakers og Boston Celtics séu illviðráðanleg þessa dagana en bæði liðin unnu góða sigra á sterkum andstæðingum í nótt.

Lakers unnu Phoenix Suns, 105-92, og Boston tóku Detroit Pistons, 98-80.

Nánari umfjöllun hér að neðan:
Lakers eru með besta vinningshlutfallið í NBA-deildinni (9-1) eftir að hafa unnið sannfærandi sigur á Phoenix á útivelli.

Lakers höfðu yfirhöndina allan tímann og gátu leyft sér að hvíla lykilmenn sína í fjórða leikhluta og varamennirnir brugðust vel við. Kobe Bryant átti ekki neitt sérstakan leik, skoraði 24 stig en hitti illa utan af velli, vel dekkaður af góðvini sínum Raja Bell. Það voru hins vegar mergir til að taka við keflinu og hitti Vladimir Radmanovic t.d. úr öllum 3ja stiga körfum sínum í leiknum.

Það var öruggur sóknarleikur sem var lykillinn að sigrinum þar sem Lakers misstu fáa bolta en voru hins vegar fljótir að refsa heimamönnum fyrir mistök.

Hjá Phoenix var Amare Stoudamire með 21 stig og gamla Lakers-tröllið Shaquille O‘Neal með 15 stig, en aðrir náðu ekki að láta ljós sitt skína.

Shaq sagði í leikslok að Lakers væru með besta liðið í deildinni. „Þeir eru bestir. Þeir eru 9-1, eru að leika góaðn bolta, Kobe er að leika liðsbolta og hefur alla með. Hann er með mikið af góðum skyttum með sér og þeir eru hættulegt lið.“

Phoenix hafa unnið 8 leiki og tapað 5 og eru í fjórða sæti Vesturdeildarinnar.

Efstir í Austurdeildinni, með 11 sigra og 2 töp eru meistarar Boston Celtics sem jörðuðu Pistons í nótt. Pistons hafa leikið vel í síðustu leikjum eftir að Allen Iverson kom til þeirra frá Denver Nuggets, hafa m.a. unnið Lakers og Cleveland, en máttu sín lítils í Boston-höllinni þar sem Kevin Garnett var kominn aftur eftir eins leiks bann. Þetta er annar stórsigur Boston í rimmu liðanna á stuttum tíma.

Það var hins vegar ekki heilaga þrenningin Garnett, Paul Pierce og Ray Allen, sem átti gólfið heldur hinn ungi og efnilegi Rajon Rondo sem átti fínan leik, gerði 18 stig og gaf 8 stoðsendingar.

Eftir að Iverson hafði farið fyrir sínum mönnum í upphafi leiksins tóku meistararnir öll völd og var snemma ljóst í hvað stefndi. Rondo og félagar reyndust einfaldlega númeri of stórir og sagði Richard Hamilton, sem átti ekki góðan leik frekar en aðrir í Pistons, að þeir væru enn að fínstilla liðið eftir leikmannaskiptin. „Við erum enn að reyna að finna okkur, en það er skammt liðið á tímabilið. Þegar þú tapar hins vegar fyrir sama liðinu tvisvar með yfir 20 stigum er það bara rugl, því við leikum ekki þannig.“

Tölfræði leikjanna

Staðan í NBA

Heimild: Yahoo! Sports

ÞJ

Fréttir
- Auglýsing -