09:10:39
LA Lakers og Boston Celtics halda enn uppteknum hætti í NBA-deildinni, en í nótt lögðu þeir andstæðinga sína að velli. Þá unnu New York og Portland leiki sína.
Nánar um leikina hér að neðan:
Lakers lögðu Milwaukee Bucks nokkuð örugglega 95-102, þótt þeir hafi ekki leikið mjög vel lengst af. Margar sóknir fóru út um þúfur vegna einbeitingarleysis, en það varð þeim til happs að Bucks voru álíka slakir. Enginn af byrjunarliðsmönnum þeirra skoraði t.d. meira en 7 stig, en allir byrjunarliðsmenn Lakers gerðu 11 stig eða meira.
Lakers er með vinningshlutfallið 17-2, sem er jöfnun á meti yfir bestu byrjun í sögu liðsins. Millwaukee Bucks eru með hlutfallið 9-13.
Indiana Pacers hafa ekki átt mjög góða leiktíð þar sem þeir eru á botni miðdeildarinnar og stefna hraðbyri á nýliðalottóið næsta sumar. Þeir hafa þó merkilegt nokk verið stórliðunum afar óþægur ljár í þúfu og haf unnið bæði Lakers og Boston í vetur.
Pacers áttu möguleika á því að bæta um betur í nótt því meistarar Boston rétt mörðu þá í framlengdum leik. Var það hetjuleg frammistaða Ray Allen (35 stig, 7-12 í 3ja) og Paul Pierce, sem jafnaði leikinn með 3ja stiga köfu undir lok venjulegs leiktíma, sem tryggði þeim sigur að þessu sinni. Boston sýndu hvar reynslan bjó og voru seigari á lokasprettinum, en Doc Rivers, þjálfari þeirra sagði að þeir hefðu stolið sigrinum.
„Þetta er það sem góð lið gera,“ sagði Paul Pierce. „Við finnum leiðir til að vinna. Þetta þarf ekki að vera fallegt öll kvöld, en þar sem þú finnur tækifæri, sérstaklega í leik eins og í kvöld, verður þú að stökkva á það.“
Detroit mátti sætta sig við tap gegn NY Knicks, en það stóð óþarflega tæpt eftir að þeir síðarnefndu köstuðu næstum frá sér 29 stiga forskoti. Lokatölur voru 104-92 þar se, Chris Duhon fór fyrir Knicks með 25 stig og 9 stoðsendingar, David Lee átti enn einn stórleikinn undir körfunni og var með 19 fráköst til viðbótar við 12 stig.
Tayshaun Prince var bestur í liði Detroit, var með 23 stig og 10 fráköst. Þess má til gamans geta að Detroit hefur tapað öllum leikjum sínum á sunnudögum í vetur, fimm talsins… Fimm.
Leiksjtórnandinn Steve Blake var hetja sinna manna í Portland Trailblazers í nótt þegar hann smellti niður 3ja stiga körfu þegar um 7 sek lifðu leiks gegn Toronto Raptors. Með því tryggði hann sigur í leiknum, 98-97,en Chris Bosh klikkaði á síðasta skoti leiksins fyrir Toronto.
Raptors hafa nú tapað öllum fjórum leikjunum eftir að þeir ráku Sam Mitchell, og það þrátt fyrir að Jermaine O´Neal væri kominn aftur í hópinn eftir meiðsli og átti hörkuleik gegn sínu gamla liði.
Munurinn lá m.a. í fráköstunum, en Blazers höfðu betur í þeirri deild, 48-31. LaMarcus Aldridge var stigahæstur Blazers með 20 stig, Blake var með 19, Greg Oden var með 10 stig, 10 fráköst og sendi Bosh á bekkinn til aðhlynningar í stutta stund eftir að hafa rekið olnbogann í enni hans svo sprakk fyrir.
O’Neal var með 24 stig og 6 varin skot, Bosh var með 19 stig og José Caldreon 15 stig og 13 stoðsendingar.
Portland er með vinningshlutfallið 15-7, en Raptors eru 8-11. Þetta var fyrsti heimaleikurinn sem Kanadamaðurinn Jay Triano stýrir liðinu, en hann þarf greinilega að fínstilla sína menn eitthvað fyrir komandi átök.
ÞJ



