spot_img
HomeFréttirLakers byrja á sigri - Portland vann Phoenix á útivelli

Lakers byrja á sigri – Portland vann Phoenix á útivelli

LA Lakers hófu titilvörnina með sigri á hinu bráðskemmtilega liði Oklahoma City Thunder í nótt, 87-79. Lakers byrjuðu mun betur gegn nýgræðingunum, sem höfðu fæstir leikið svo mikið sem einn leik í úrslitakeppni, en Thunder komu sterkir inn fyrir lok fyrri hálfleiks og héngu inni í leiknum allan tímann, þökk sé frábærum leik Russel Westbrook.
Stigakóngurinn Kevin Durant gerði 24 stig, en komst lítið áfram lengi vel þar sem hann var í krumlum varnartröllsins Ron Artest. Miðherji Lakers Andrew Bynum var mættur til leiks á ný eftir meiðsl á hásin og átti afar góða innkomu þar sem hann var illviðráðanlegur beggja vegna vallarins. Kobe Bryant var þó stigahæstur meistaranna með 21 stig og Pau Gasol var með 19.
Á meðan lögðu Orlando Magic Charlotte Bobcats að velli, 98-89, þar sem Jameer Nelson skoraði 32 stig fyrir Magic og Gerals Wallace gerði 25 fyrir Bobcats, sem eru að leika í úrslitakeppni í fyrsta sinn.
 
Ofurmennið Dwight Howard var laminn til undirgefni af stóru mönnum Bobcats, komst lítið áleiðis í sóknarleiknum en varði þó níu skot hinum megin á vellinum. Sigur Magic var þó aldrei í mikilli hættu, til þess var Nelson of stór biti og boðar það gott fyrir framhaldið hjá Magic að hann geti tekið við keflinu þegar menn eins og Howard og Vince Carter eiga slæma daga.
 
Dirk Nowitzki var maður kvöldsins hjá Dallas Mavericks sem sigruðu granna sína í SA Spurs, 100-94. Hann gerði 36 stig og hitti úr nær hverju skoti, en fékk líka mikla hjálp frá Caron Butler, Jason Kidd og Brendan Haywood.
 
Á meðan voru Spurs í vandræðum þar sem lítið kom út úr öðrum en stjörnunum Tim Duncan Manu Ginolbili og Tony Parker.
 
Loks er að geta fyrstu óvæntu úrslitanna í þessari úrslitakeppni., en Portland Trail Blazers, sem eru með meiðslalista á við gestalista Veðurguðanna, lögðu Phoenix Suns á þeirra eigin heimavelli, 100-105.
 
Brandon Roy er ekki með þar sem hann meiddist í síðasta leik tímabilsins, en Andre Miller gerði 31 stig, LaMarcus Aldridge gerði 22 og Marcus Camby var óstöðvandi í fráköstunum.
 
Portland réði gjörsamlega hraða leiksins og náðu að stöðva Eyðimerkurhraðlest Steve Nash og settu hana af sporinu í lokafjórðungnum.
 
Af öðrum fréttum í NBA má geta þess að Kevin Garnett hjá Boston Celtics hefur verið dæmdur í eins leiks bann fyrir að gefa Quentin Richardsson hjá Miami Heat olnbogaskot í leik liðanna um daginn.
 
Fréttir
- Auglýsing -