spot_img
HomeFréttirLakers á toppi NBA deildarinnar á ný

Lakers á toppi NBA deildarinnar á ný

{mosimage}Los Angeles Lakers hafa í gegnum árin verið verið eitt besta liðið í NBA deildinni. Þeir hafa verið tákn um glæsileika, Hollywood stjörnur, meistaratitla og NBA súperstjarna sem hafa spilað hjá liðinu eins og t.d. Magic Johnson, Jerry West, Wilt Chamberlain, Kareem Abdul-Jabbar, Kobe Bryant og Shaquille O’Neal. Lakers hafa unnið NBA titilinn 9 sinnum síðan liðið flutti til Los Angeles borgar frá Minneapolis árið 1960 og verið eitt sigursælasta lið deildarinnar frá upphafi. Það má með sanni segja að níundi áratugurinn hafi verið öld Lakers í NBA deildinni en þeir unnu titil 1980, 82, 85, 87 og 1988. Auk þess komust Lakers í úrslit árið 1983, 84, 89 og 1991. Það var Pat Riley sem stýrði liðinu frá 1980 til 1990 og á fjóra titla með félaginu.

Það má fullyrða að stærstan þátt í þessari gullöld Lakers hafi Ervin “Magic” Johnson átt, 206 cm leikstjórnandinn snjalli sem var valinn úr háskóla til Lakers árið 1979 og vann 5 titla með félaginu. Sem nýliði átti hann einn sinn frægasta leik í úrslitum NBA þegar hann kom í stað Kareem Abdul-Jabbar sem var meiddur og spilaði sem miðherji. Hinn 21 árs gamli Magic Johnson skoraði 42 stig, tók 15 fráköst og átti sjö stoðsendingar. Þetta er oft talið ein besta framkoma hans og allavegana ein sú frægasta. Eins og flestum er kunnugt þá þurfti hann að draga sig í hlé frá körfuboltanum vegna HIV veirunnar sem hann hafði smitast af árið 1991.

Kareem Abdul-Jabbar hætti árið 1989 og svo Magic árið 1991. Árin eftir það fóru Lakers í mikla lægð og duttu annaðhvort út úr fyrstu umferð í úrslitakeppninni eða komust jafnvel ekki í hana (tímabilið 1993-1994, í fyrsta sinn síðan 1975). Tímabilið 1996-1997 dró þó heldur til tíðinda í Los Angeles borg. Úr nýliðavalinu fengu Lakers hinn 18 ára gamla Kobe Bryant átti eftir að setja mark sitt á Los Angeles og Lakers liðið um ókomin ár. Sama tímabil fengu þeir risann og All-Star leikmanninn Shaquille O’Neal frá Orlando Magic. Næstu þrjú tímabil frá 1997 til 1999 áttu Lakers eftir að komast í undanúrslit í vestrinu en verða sópaðir út af sterkari liðum. Það var ljóst að nú þyrfti einhverja breytingu.

Fyrir tímabilið 1999-2000 fengu Lakers Phil Jackson sem aðalþjálfara, sem hafði unnið 6 meistaratitla fyrir Chicago Bulls. Ljóst var að Lakers liðið var ungt og efnilegt en vantaði aga og góðan þjálfara. Jackson var ekki lengi að skila árangri og vann hann þrjá titla á fyrstu þremur árum sínum hjá Lakers. Samtals er Phil Jackson kominn með 11 meistaratitla, 2 sem leikmaður með New York Knicks og 9 sem þjálfari. Merkilegt er að segja frá að Phil Jackson hefur þrisvar sinnum unnið þrjá titla í röð. {mosimage}

Lakers misstu Shaquille O’Neal árið 2004 og við það urðu Lakers eitt lélegasta liðið í vesturdeildinni. Það ár komst Lakers ekki í úrslitakeppnina í fyrsta skipti síðan 1994. Kobe Bryant stóð einn eftir með vængbrotið lið og sama þótt að Kobe næði að skora 81 stig í leik, þá var snilli hans ein og sér ekki nóg til að koma Lakers áfram í úrslitakeppninni fyrstu þrjú árin eftir að Shaq fór.

Það sem hefur gerst við Los Angeles Lakers liðið síðustu 2 ár er dæmi um frábæra þjálfun og stjórnun. Mörg lið eru svo en eru svo illa stjórnuð að þau ná aldrei góðum árangri, samanber New York Knicks síðustu ár. Hinsvegar glíma Lakers ekki við þetta vandamál og það tók ekki liðið langan tíma að fara úr einu lélegasta liðinu í deildinni í eitt besta. Flestir afskrifuðu þá eftir að Shaq fór til Miami og gagnrýnendur vildu meina að Kobe Bryant einn og sér gæti ekki leitt liðinu til meistaratitils aftur. Hann hefur afskrifað allar gagnrýnisraddir og í fyrra komust Lakers í úrslit en töpuðu gegn Boston Celtics. {mosimage}

Í ár er liðið eitt af tveimur bestu liðum deildarinnar, ásamt Boston Celtics. Liðið er blanda af ungum og efnilegum leikmönnum sem spila sitt hlutverk og hlýða á leiðsögn Phil Jackson. Kobe Bryant þarf ekki lengur að skora yfir 40 stig í leik til að það sigri heldur geta Lakers reitt sig á menn eins og Pau Gasol og Andrew Bynum. Hingað til hefur liðið aðeins tapað tveimur leikjum og eru NBA sérfræðingar að velta fyrir sér hvort að liðið getur bætt 72-10 árangur Chicago Bulls frá árinu 1995-1996 sem sjálfur Phil jackson þjálfaði. Sama hvað gerist þá er á hreinu að Lakers eru komnir á topp NBA deildarinnar á ný og eiga góðan möguleika á að vinna 10. meistaratitil liðsins í Los Angeles borg.

Arnar Freyr Magnússon
[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -