spot_img
HomeFréttirKvittar Njarðvík fyrir kjöldráttinn?

Kvittar Njarðvík fyrir kjöldráttinn?

Tveir stórleikir fara fram í kvöld en þá mætast Njarðvík og KR í sinni annari undanúrslitaviðureign í Domino´s-deild karla. Leikurinn fer fram í Ljónagryfjunni og hefst kl. 19:15 en KR TV verður með leikinn í beinni útsendingu. Þá hefst einnig úrslitaeinvígið í 1. deild karla þar sem Hamar og FSu takast á í sannkölluðum Suðurlandsskjálfta kl. 19:15 í Frystikistunni.

KR 1-0 Njarðvík

Íslandsmeistararnir lentu 22-28 undir eftir fyrsta leikhluta gegn Njarðvíkingum og það líkaði þeim illa frammi fyrir sínu fólki og það í beinni hjá Stöð 2 Sport. Röndóttir tóku næstu tvo leikhluta í að kafsigla Njarðvíkinga og unnu að lokum sannfærandi 79-62 sigur sem hefði auðveldlega getað verið margfalt stærri. Njarðvíkingar hafa nú verið við teikniborðið síðustu daga og munu líkast til smekkfylla Ljónagryfjuna svo það er ráð að mæta snemma á þennan í kvöld! 

Hamar 0-0 FSu
Hamar kláraði ÍA 2-0 í undanúrslitum en FSu lagði Val 2-1. Það eru Hvergerðingar sem eiga heimaleikjaréttinn þessa úrslitaseríuna en vinna þarf tvo leiki til þess að tryggja sér sæti í Domino´s-deildinni næsta tímabil. Fyrsta deildarrimma liðanna á tímabilinu í þrefaldri umferð fór fram í Hveragerði í október, heimamenn höfðu þann slaginn 84-78. Liðin mættust svo aftur og nú í Iðu þann 18. desember og þá jöfnuðu FSu-menn um Hvergerðinga með 95-87 sigri. Þriðja og síðasta deildarviðureign liðanna var einnig leikin í Iðu og nú í febrúar og þá áttu Hamarsmenn lokaorðið í deildinni, 79-98 útisigur þar. Við erum því á leið inn í hörku úrslitaseríu.

Bæði lið hafa áður leikið í úrvalsdeild, FSu með tvö tímabil að baki í efstu deild, 2008-2010 en Hamar hefur sjö sinnum leikið í úrvalsdeild. 

Mynd/ Bára Dröfn: Svo bregðast krosstré sem önnur tré. Stefan Bonneau þarf heldur betur að bæta við sig snúning frá síðasta leik þar sem honum var hreinlega pæklað niður í tunnu með 11 stig aðeins og 3 í framlag sem er hans langversta frammistaða með Njarðvíkurliðinu á tímabilinu.

Fréttir
- Auglýsing -