spot_img
HomeFréttirKvennalið KR leikur líklega án erlends leikmanns fyrir áramót

Kvennalið KR leikur líklega án erlends leikmanns fyrir áramót

09:58
{mosimage}

 

(Jóhannes Árnason) 

 

,,Eins og staðan er í dag verðum við ekki með erlendan leikmann fyrr en í fyrsta lagi eftir áramót,” sagði Jóhannes Árnason þjálfari KR í Iceland Express deild kvenna í samtali við Karfan.is. Allt útlit er því fyrir að á brattann verði að sækja hjá silfurliði Íslandsmótsins framan af næstu leiktíð en Jóhannes vonar að þetta verði nógu mikil andleg hvatning til þess að hans leikmenn þrói sinn leik og taki á sig þá ábyrgð sem hann telur að þeir geti staðið undir.

 

,,Þeir leikmenn sem eru ekki í landsliðinu hafa verið að æfa á fullu í sumar og það er góður andi í hópnum. Eins og alltaf eru sumir duglegri en aðrir að æfa en ég á von á því að 2-3 af þeim stelpum sem voru að banka á dyrnar hjá okkur síðasta vetur eigi eftir að koma mönnum skemmtilega á óvart,” sagði Jóhannes. 

,,Eins og staðan er í dag verðum við ekki með erlendan leikmann fyrr en í fyrsta lagi eftir áramót. Því miður hefur okkur ekki tekist að fá styrktaraðila til liðs við okkur í kvennakörfunni og því er staðan svona. Stjórnarmenn, ég og stelpurnar ætlum þó að reyna að afla peninga á einhvern hátt, sem vonandi flýtir fyrir ferlinu,” og bætti Jóhannes við að þetta væri fjarri því óskastaða.  

,,Við reynum að líta á jákvæðu hliðarnar á þessu. Ég hef leikmenn í mínu liði sem hafa mikla sóknarlega getu en hafa ekki sýnt nógu mikinn stöðuleika til að teljast ,,skorarar". Sú staðreynd að ekki verður hægt að treysta á neinn nema sjálfan sig verður vonandi nógu mikil andleg hvatning til að þessir leikmenn þrói leik sinn og taki á sig þá ábyrgð sem ég tel að þeir geti staðið undir,” sagði Jóhannes og á von á því að tefla fram nokkuð óbreyttu liði frá síðustu leiktíð. 

,,Liðið sem við teflum fram verður svipað og í fyrra. Við missum Kolbrúnu Kolbeinsdóttur út til USA í nám. Auk þess hafa tvær gamalreyndar ákveðið að hætta, þær Elín B. Bjarnadóttir og Guðrún Sveinbjörnsdóttir en við fáum a.m.k. Kristínu Jónsdóttir til baka. Auk þess á ég von á því að Lilja Oddsdóttir, Rakel Viggósdóttir og Guðrún Sigurðardóttir bæti sig svakalega frá því fyrra og ég hef mikla á trú á þeim,” sagði Jóhannes vongóður.

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -