spot_img
HomeFréttirKveikt á jólaljósunum í Iðu

Kveikt á jólaljósunum í Iðu

FSu spilaði tvo heimaleiki í 1. deild karla um helgina. Að vísu var sunnudagsleikurinn færður fram á mánudag vegna veðurs, en það breytir því ekki að fjórir baggar bættust við forðastabbann í toppbaráttu deildarinnar. Á föstudag vannst allþægilegur 9 stiga sigur á botnliði Þórs, 80-71, í leik sem sennilega færi best á að gleymdist að öðru leyti, og þeir hjá KKÍ virðast sammála því og hafa stungið tölfræðiskýrslunni í tætarann. Og í kvöld var sem sagt fært fyrir KFÍ úr höfuðborginni austur yfir Fjall. En liðið þarf að aka í nótt vestur á Ísafjörð án stiga því heimaliðið vann sæmilega öruggan 15 stiga sigur, þó eftir nokkuð japl, jaml og fuður. Lokatölur 101-86. Það má því segja að FSU hafi kveikt á aðventuseríunum og byrji jólaundirbúninginn með stæl.
 
 
Leikurinn í kvöld var sveiflukenndur svo ekki sé meira sagt. FSu byrjaði af miklum krafti og logaði á öllum perum í fyrri hálfleik. Sóknarleikurinn var glimrandi, silfurtærar leikfléttur, gullsendingar og hittnin frábær. Liðið skoraði 34 stig í fyrsta leikhluta og 62 í hálfleiknum. Á hinn bóginn var vörnin ekki eins þétt og áköf og verið hefur undanfarið og KFÍ skoraði fyrir vikið 42 stig, sem að öllu jöfnu á að vera alveg nóg til forystu.
 
Í leikhléi virtist ein peran hafa losnað og fyrir vikið slokknaði á allri FSu-seríunni. KFÍ hélt hins vegar sama straumi áfram og sallaði muninn smám saman niður, vann þriðja hluta 14-26 og bilið komið í 9 stig fyrir síðasta leikhlutann, 76-67. Á lokasprettinum sátu heimamenn enn eftir í startinu á meðan gestirnir hlupu af stað á milliferð. Á 6 mín. kafla frá miðjum öðrum hluta og fram í þann þriðja skoraði KFÍ 20 stig gegn 6 stigum FSu og allt í einu munaði 2 stigum, 76-74.
 
En þá áttaði einhver sig á lausu perunni, skrúfaði hana fasta og það var ekki að sökum að spyrja að kviknaði á allri, marglitri ljósaröðinni í Iðu og heimaliðið pakkaði þessu inn, með slaufu og borða, þannig að stuðningsmennirnir fengu pakka að lokum, þó lítt væri það í gadda slegið á tímabili.
 
Hjá gestunum voru Nebojsa Knezevic (27 stig/4frk./1 sts) og Birgir Björn Pétursson (26 stig/14 frk.) allt í öllu. Óskar Kristjánsson átti fína spretti sóknarlega, 4 þrista og 14 stig, Pance Ilievski setti þrjá og 9 stig og Haukur Hreinsson nýtti vel þau fáu skot sem hann fékk, 2/3 í þristum og 6 stig. Florian Jovanov og Björgvin Snævar Sigurðsson skoruðu 2 stig hvor. Segja má að sóknarleikur KFÍ sé of einhæfur, mikið knattrak og einn á einn, og því lítið flæði. Það eru þarna strákar sem má alveg treysta til að skjóta á körfuna, ef færi skyldu opnast úr liðskerfum!
 
FSu liðið lék við hvurn sinn fingur sóknarlega fram að hálfleik. Ari sallaði niður þriggjastigaskotum, Birkir, Geir og Elli líka, Collin hitti úr öllu og allt gekk eins og í lygasögu, sannast sagna. Í seinni hálfleik snerist þetta alveg við. Kannski mætti liðið værukært eftir sýninguna fyrir hlé? En alla vega var leikurinn dapur, sendingar slæmar, skotval illa ígrundað og allt stirðbusalegt í meira lagi, knattrak og hnoð gegn svæðisvörn gestanna, þar sem Birgir Björn breiddi úr sér utan við vítalínu.
 
Sem betur fer hristu strákarnir þó af sér slenið og luku leiknum með sóma og fylgja því Hamri þétt eftir á toppnum, með Hött andandi ofan í hálsmálið.
 
Collin Pryor átti afbragðsleik, skoraði 27 stig (10/13 eða 77% nýting), tók 18 fráköst, stal 4 boltum og safnaði 45 framlagsstigum. Ari kom næstur með 24 stig (5/10 í þristum) og 4 frk. og Elli á hæla hans með 22 stig og 5 stoðsendingar. Hlynur daðraði við tvöfalda tvennu með 10 stig og 8 stoðsendingar, Birkir 7 stig og 5 stoðs., Þórarinn 6 stig, Geir 3 og Maciej 2 stig.
 
Ísak Kristinsson og Þorkell Einarsson dæmdu leikinn og komust að mestu leyti vel frá sínu.
 
 
 
Mynd úr safni/ Collin var stigahæstur í liði FSu í kvöld.
Fréttir
- Auglýsing -