spot_img
HomeFréttir?Kusum naktir í búningsklefanum"

?Kusum naktir í búningsklefanum”

8:30

{mosimage}  {mosimage}

Það hefur varla farið framhjá nokkrum manni umræðan um val á leikmanni ársins í Landsbankadeild kvenna á dögunum. Talað er um samantekin ráð gegn Margréti Láru Viðarsdóttur og þar fram eftir götunum. Sigurður Elvar Þórólfsson blaðamaður á Morgunblaðinu og fyrrverandi leikmaður körfuknattleiksliða Skallagríms, ÍA og Laugdæla skrifar á blogginu sínu um þetta og ber saman við hvernig hann og félagar hans kusu leikmann ársins í Úrvalsdeild karla á sínum tíma.

 

 

Þar skrifar hann pistilinn undir fyrirsögninni, „Kusum naktir í búningsklefanum”. Þar talar hann m.a. um hversu einfalt var að hafa áhrif á skoðanir annarra leikmanna og stundum kaus bara fyrirliðinn fyrir alla.  

Við á karfan.is settum okkur í samband við Hannes S. Jónsson formann KKÍ og spurðum hvor þetta væri rétt að formið væri svona opið og ef svo væri hvort KKÍ hefði einhver áform um að breyta þessu. 

En fyrst pistill Sigurðar Elvars í heild sinni. 

Ég veit ekki hvernig framkvæmdin á kjöri leikmanns ársins í Landsbankadeildinni fer fram. 

Það sem ég veit er að leikmenn fá kjörseðil og velja sjálfir besta leikmanninn en geta ekki valið leikmann úr sínu liði.

Ég veit hinsvegar hvernig þetta kjör er í úrvalsdeildinni í körfubolta. Ég tók þátt í nokkrum kosningum, og ferlið er svona:

Umslag með öllum atkvæðaseðlunum er sent á fyrirliða eða forsvarsmann félagsins.

Fyrirliðinn fær umslagið og deilir út atkvæðaseðlunum til leikmanna á æfingu. 

Leikmenn setjast niður í búningsklefanum, hlið við hlið.

Sumir gátu bara kosið naktir, reyndar voru mjög margir sem kusu naktir. Veit ekki afhverju.

Ýmsar spurningar vöknuðu. Hver er besti nýliðinn?, besti dómarinn?, þjálfari ársins?, besti leikmaðurinn?, úrvalslið ársins. Sumir þurftu aðstoð við að rifja upp gang mála á leiktíðinni. 

Oftar en ekki er skortur á pennum á svæðinu. Mjög algengt tæknilegt vandamál

Það kom fyrir að atkvæðaseðlarnir voru mun fleiri en leikmennirnir sem eru á æfingu. 

„Hver vill meira" spyr fyrirliðinn og einhver tekur 5-6 seðla til viðbótar og fyllir þá út. 

Það hefur einnig komið fyrir að fyrirliðinn sat nánast einn með alla kjörseðlana og fyllti þá út sjálfur. 

Atkvæðaseðlunum var síðan safnað saman í eitt umslag sem fyrirliðinn sá um að senda á KKÍ.

Mjög opin kosning og það var mjög auðvelt að hafa áhrif á valið hjá yngri leikmönnum.

Ég er ekki að segja að þetta sé svona í fótboltanum. Vonandi er kerfið miklu betra þar á bæ. En maður veltir því samt sem áður fyrir sér hvernig þetta er framkvæmt.. 

Val á besta leikmanni og þjálfara ársins í öllum boltagreinunum verður alltaf umdeilt.

Ég held að Keflavík hafi í gegnum tíðina fengið ótrúlega fáar viðurkenningar á lokahófi KKÍ – miðað við afrek liðsins. Sigurður Ingimundarson hefur t.d. aldrei fengið viðurkenninguna, þjálfari ársins. Þrátt fyrir fjóra Íslandsmeistaratitla frá árinu 1997.

Samsæri?

Veit það ekki. En þetta er samt sem áður ótrúleg staðreynd.

Ég held að Sigga sé alveg sama um titilinn þjálfari ársins á meðan hann landar öðrum titlum sem þjálfari.   

E.s. myndin sem fylgir færslunni er ekki af mér. 

Þá koma svör Hannesar. 

Hvað segir fomaðurinn um þetta?

Það er nú þannig að þetta er eitt af þeim málum sem ég hef tekið fyrir eftir að ég tók við formennsku fyrir um einu og hálfu ári og við m.a. rætt á formannafundi við félögin að mjög líklega  þurfi að breyta þessari kosningu. Ég hef að sjálfsögðu heyrt að einhver lið hafi stundum kosið þetta á örfáum mínútum inni í klefa eftir einhverja æfinguna en ég hef einnig heyrt af mörgum dæmum þar sem lið hafa gert þetta vel og leikmenn skilað þessu inn til síns fyrirliða 1-2 dögum eftir afhendingu seðlanna.  

Er formið svona?

Já formið er svona í dag að fyrirliðar fá kosningablöð sem þeir svo skila inn á skrifstofu KKÍ eftir að allir hafa kosið.

 

Ef svo er , hvernig væri hægt að gera þetta öðruvísi?

 

Ég sé breytingarnar helst felast í því að leikmenn hafi 50% vægi í svona kosningu og svo nefnd með 10-15 einstaklingum sem hafa önnur 50% vægi, ég vil alls ekki að leikmenn hætti þátttöku í  þessari kosningu. En það hafa nokkrar hugmyndir verið ræddar og nú þarf bara að klára þetta. Við munum klára þessi mál á næstu vikum og við stefnum á að breyta þessu fyrirkomulagi fyrir lok þessa keppnistímabils. Ég tek það samt fram að það er ekki til hið fullkoma kerfi í kosningum sem þessum og ég held að það verði alltaf skiptar skoðanir um það hvort þessi einstaklingur átti skilið að vinna eða einhver annar, þetta er eins og með val í landslið menn hafa og munu alltaf hafa skoðanir á því  sem er bara hið besta mál.  

 

Þá má geta þess að við breyttum forminu á vali á þjálfara ársins í vor, þá kusu bara þjálfarar í deildinni þjálfara ársins, áður tóku leikmenn þátt í því.

 

Við þökkum Sigurði Elvari og Hannesi fyrir þetta

 

[email protected]

 

Mynd af Sigurði Elvari: Sigurður Elvar Þórólfsson

Mynd af Hannesi: www.kki.is

 

Fréttir
- Auglýsing -