Skallagrímsmenn hafa sagt upp samningi sínum við Nikola Kuga en leikmaðurinn var þegar látinn fara áður en Skallagrímur og Breiðablik áttust við þann 29. október síðastliðinn. Þetta staðfesti Pálmi Þór Sævarsson þjálfari Skallagríms í samtali við Karfan.is.
Kuga var svo sem með flottar tölur, 16,3 stig í leik og 9,3 fráköst en Pálmi sagði að leikmaðurinn hefði ekki fallið nægilega vel inn í hópinn. ,,Hann náði ekki að aðlagast leik liðsins né þeirri stöðu sem hann átti að skila í liðinu,“ sagði Pálmi og bætti við að verið væri að vinna í því að fá annan Evrópuleikmann í Fjósið en ekkert væri öruggt í þeim efnum nema það eitt að Borgnesingar þyrftu að styrkja sig undir körfunni.
Borgnesingar eru í 3.-4. sæti 1. deildar karla ásamt FSu þar sem bæði lið hafa 6 stig en næsti deildarleikur þeirra er gegn Þór Akureyri á útivelli þann 12. nóvember næstkomandi.
Ljósmynd/ Kuga er hér nr. 13 í leik gegn Valsmönnum fyrir skemmstu.



