Valskonur gerðu góða ferð í Röstina í Grindavík í dag þegar þær lögðu gular heimakonur 65-80. Jaleesa Butler og Kristrún Sigurjónsdóttir reyndust Grindvíkingum erfiðar og gerðu saman 50 af 80 stigum Vals í leiknum. Grindvíkingar eru í 7. sæti deildarinnar eftir leikinn í dag með 10 stig en Valskonur í 3. sæti með 22 stig.
Það virðist einkenna Grindavíkurliðið að byrja vel en í dag líkt og aðra daga byrjuðu þær vel og var leikurinn jafn þar til 2 mínútur voru eftir af 1. leikhluta. Valur byrjaði þá að sigla fram úr og endaði leikhlutinn í 21:30 Val í vil. Í öðrum leikhluta varð sagan verri fyrir Grindavík og Valur komst mest 16 stigum yfir. En þetta er ekki í fyrsta skipti þar sem Grindavík tapar leiknum sínum í öðrum leikhluta. Staðan í hálfleik var orðin 37:49 Val í vil.
Grindavík mætti svo aftur til leiks í seinni hálfleik og náðu að minnka muninn í 44-51. Valur jók forskotið aftur og endaði leikhlutinn í 52-67. Í fjórða leikhluta komst Grindavík ekkert í nálægð við Val og endaði leikurinn í 65:80 Val í vil.
Grindavík spilaði án Helgu Rutar Hallgrímsdóttir en hún var frá vegna veikinda. En atkvæðamest fyrir Grindvíkinga var Crystal Smith með 22 stig, 9 stoðsendingar og 6 fráköst. Petrúnella Skúladóttir gerði 17 stig og 11 fráköst. Skotin voru ekki að detta fyrir þær og voru þær með 31.4% nýtingu í tveggja stiga og 23.1% í þrigga stiga.
Fyrir Val var Kristrún Sigurjónsdóttir með 29 stig en Jaleesa Butler var með 41 framlagsstig en hún var með 21 stig, 21 frákast, 6 stoðsendingar og 5 varin skot.
Mynd og umfjöllun/ Jenný Ósk



