spot_img
HomeFréttirKristófer: Þetta er fáránlegt

Kristófer: Þetta er fáránlegt

Leiktíðin er komin á enda hjá Kristófer Acox og því mun kappinn ekki spila meira með Furman í bandaríska háskólaboltanum þessa vertíðina. Kristófer er með álagsbrot í fæti. Álagsbrotið er meiðsli sem munu víst hafa angrað hann í nokkurn tíma.
 
 
„Þetta byrjaði sem einhver sprunga í ristinni þegar ég var að spila heima og ég gerði ekkert í því heldur spilaði á þessu svo lengi að þetta brotnaði,“ sagði Kristófer í snörpu samtali við Karfan.is.
 
Kristófer á að fara í aðgerð vegna meiðslanna í næstu viku og tjáði Karfan.is að hann yrði frá í einhverja sex mánuði eftir aðgerðina. Álagsbrotið er greinilega lúmskur kvilli því Kristófer kenndi sér lítils. „Þetta er svo fáránlegt, ég er búinn að vera að spila á þessu, var á æfingu í fyrradag og allt bara í góðu, þetta er fáránlegt,“ sagði Kristófer sem viðurkenndi að þessi meiðsli og fjarveran væru gríðarleg vonbrigði.
 
Kristófer hefur stimplað sig vel inn í lið Furman sem nýliði og leikur um 20 mínútur að meðaltali í leik. Hans verður sárlega saknað en Furman hefur tapað öllum fjórum leikjum sínum í riðlakeppni NCAA deildarinnar það sem af er nýja árinu.
  
Fréttir
- Auglýsing -