„Ég fékk nýtt gypsi í gær og losna við það 5. mars og byrja endurhæfingu fljótlega eftir það,“ sagði Kristófer Acox í samtali við Karfan.is í dag en Kristófer er námsmaður við Furman háskólann í Bandaríkjunum og leikur með skólaliðinu í 1. deild NCAA háskólaboltans.
Karfan.is greindi frá því þann 15. janúar síðastliðinn að Kristófer væri með álagsbrot í fæti og að þessi leiktíð hjá honum væri fyrir vikið á enda komin.
„Ég ætti að vera kominn á gott ról í júní eða júlí en ég fékk að sjá fótinn aðeins í gær og hann er fáránlega bólginn,“ sagði Kristófer sem kemur til landsins í maí. Hann sagði aðgerðina á fætinum hafa heppnast vel.
„Það er von á fullum bata á meðan maður er ungur og hraustur en læknirinn sagði samt að þetta væri brot af sama toga og endaði ferilinn hans Yao Ming. Fætur hans voru reyndar illa farnir en fyrir mig er þetta ekki áhyggjuefni held ég. Mér er bara ráðlagt að fara í góða endurhæfingu og hugsa vel um brotið þangað til það er alveg búið að gróa og þá ætti allt að vera í góðu.“
Tengt efni:



