„Stemmarinn er góður bara, við erum akkúrat á leiðinni í „shootaround,“ fara yfir game-planið og skjóta aðeins,“ sagði Kristófer Acox þegar Karfan.is náði tali af kappanum í dag. Kristófer og félagar í Furman mæta The Citadel í fyrstu umferð úrslitakeppninnar í Southern Conference í kvöld. Fyrir áhugasama verður hægt að horfa á leikinn á ESPN3 stöðinni í kvöld.
„Leikurinn er svo seint þannig við höfum allan daginn til að undirbúa okkur en það eru allir mjög spenntir fyrir því að komast út á gólfið. Við töpuðum gegn þeim á heimavelli síðasta en unnum þá nokkuð örugglega úti. Við erum klárlega með betri hóp en þurfum að fá nóg frá öllum til að vinna í kvöld. Annars er það bara „win or go home“ svo það þýðir ekkert annað en að vinna,“ sagði Kristófer sem leiðir Furman í fráköstum þetta tímabilið.
Kristófer missti af úrslitakeppni riðilsins í fyrra sökum meiðsla: „Þetta er fyrsta „tournamentið“ mitt svo ég er virkilega spenntur!“
Viðureign Furman og The Citadel hefst kl. 1:30 að íslenskum tíma í nótt.



