spot_img
HomeFréttirKristján Leifur: Stend bara á milli áhorfendastúkanna

Kristján Leifur: Stend bara á milli áhorfendastúkanna

 

Í kvöld kl. 19:15 mætast Haukar og Valur og Haukar í DB Schenker Höllinni í Hafnarfirði í úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn. Síðast þegar um oddaleik var að ræða, árið 2016, fór hann einmitt fram á sama stað, en þá töpuðu Haukar fyrir liði Snæfells. 

 

Burðarásar liðanna tveggja í kvöld eru systurnar Guðbjörg og Helena Sverrisdætur. Helena fyrir Hauka, en Guðbjörg fyrir Val. Karfan hafði í gær samband við yngri bróðir þeirra, Kristján Leif og spurði hann út í einvígið og leikinn, en hann leikur með karlaliði Hauka.

 

 

 

Hvernig finnst þér úrslitaeinvígi Vals og Hauka hafa spilast?

"Finnst búið að vera virkilega spennandi að horfa á og mjög skemmtilegur bolti sem liðin hafa verið að spila, sumir leikir hafa ekkert endilega verið mjög jafnir en hinsvegar hafa þeir allir verið mjög skemmtilegir áhorfs."

 

 

Hvað hefur komið þér á óvart í einvíginu?

"Valsliðið hefur komið mér á óvart en þær voru fyrir seríuna smá underdogs en djöfull hafa þær verið góðar og þeim er alveg sama hverjum þær eru að spila á móti, þær ætla bara að vinna.

"Honorable mention fær svo Gugga systir mín, löngu vitað að hún er frábær leikmaður en í þessari seríu er hún bara búin að vera top-class og unun að horfa á hana."

 

 

Er mikil spenna innan fjölskyldunnar vegna úrslitanna/oddaleiksins?

"Já erum náttúrulega hreinræktað körfuboltafólk og ég held ég tali fyrir aðra meðlimi fjölskyldunnar að ég er fáranlega spenntur fyrir leiknum á morgun og býst við hörkuleik. Heyrst hefur líka að eldri bróðir minn sem lagði skónna á hilluna fyrir rúmum áratug muni mæta með okkur að hvetja, enda systir okkar að fara verða Íslandsmeistari, sama hvort liðið vinnur!"

 

 

Með hverjum heldur þú og restin af fjölskyldunni?

"Erum rosalega mikið Haukafólk þannig þetta er venjulega þannig þegar þessi tvö lið mætast að við höldum með Haukum og Guðbjörgu. En miðað við þessa seríu held ég eiginlega bara með báðum liðum, ef það er leyfilegt? Stend bara á milli áhorfendastúkanna á morgun svo ég sé ekkert að gera upp á milli þeirra."

 

 

Hvernig fer oddaleikurinn?

"Mér finnst rosalega erfitt að segja til um það, heimavöllurinn hefur verið rosalega sterkur í þessari seríu þannig tölfræðin segir að Haukarnir taki þetta á morgun en ég held það séu stór mistök að afskrifa valskonur einfaldlega útaf vellinum sem er spilað á. Þetta er oddaleikur fyrir titlinum þannig ég held að það lið sem vill þetta meira taki þetta."

Fréttir
- Auglýsing -