spot_img
HomeFréttirKristinn: Vissi ekkert hver staðan var

Kristinn: Vissi ekkert hver staðan var

12:00

{mosimage}
(Kristinn að verjast Fannari Helgasyni leikmanni Stjörnunnar)

Kristinn Jónasson og félagar í Fjölni tryggðu sér sæti í bikarúrslitaleik Lýsingarbikars karla með ótrúlegum endaspretti gegn Skallagrími í Borgarnesi á sunnudagskvöldið. Frá þessu er greint á www.visir.is.

„Ég heyrði það bara eftir leikinn að Hlynur Bæringsson hefði verið eitthvað voðalega spenntur fyrir Vesturlandsslag en það verður bara alvöruslagur í staðinn," sagði Kristinn í léttum tón og bætti við: „Góðir leikmenn stíga upp þegar á þá reynir og ég var búinn að vera rólegur í þessum leik og ekki að reyna mikið. Maður tók bara smá kipp í fjórða leikhluta," sagði Kristinn sem skoraði 9 stig á síðustu fimm mínútum leiksins þegar Fjölnir breytti stöðunni 78-65 fyrir Skallagrím í 83-85 sigur.

„Taktíkin var að fara inn á Sean Knitter inn í teig. Það er erfitt að stoppa hann því hann er með frábærar hreyfingar. Þeir voru að tvöfalda á hann sem opnaði fyrir alla hina," segir Kristinn sem jafnaði leikinn með þriggja stiga körfu þegar 50 sekúndur voru eftir.

„Þegar ég setti þristinn niður í lokin þá vissi ég ekkert hver staðan var í leiknum því ég var ekkert að pæla í því. Það var enginn í mér og ég lét vaða. Svo leit ég bara á klukkuna og sá að það var orðið jafnt," segir Kristinn.

Það er búið að ganga á ýmsu og nú síðast skipti liðið enn á ný um erlenda leikmenn. „Þetta er búið að vera ógeðslega erfitt í vetur. Við erum búnir að vera mikið meiddir og svo höfum við allaf verið að fá nýja og nýja útlendinga," sagði Kristinn sem leist ekkert alltof vel á breytingarnar fyrst.

„Ég varð fyrir smá vonbrigðum fyrst því það var sárt að sjá eftir Karlton Mims því mér fannst hann vera frábær leikmaður og við vorum líka góðir félagar. Það sem skiptir máli er að við vinnum og það var ekki að ganga með Mims," segir Kristinn.

„Vonandi er þetta að smella hjá okkur núna en við ætlum samt að reyna að klára þetta sterkt og koma okkur í úrslitakeppnina," sagði Kristinn og hann er ekkert smeykur við að mæta Skallagrími aftur á fimmtudaginn. „Við flengjum Skallana bara aftur á heimavelli á fimmtudaginn því við ætlum ekki að tapa fleiri leikjum á heimavelli í vetur," sagði Kristinn að lokum.

Mynd: Snorri Örn Arnaldsson

Emil Örn Sigurðarson

Fréttir
- Auglýsing -