spot_img
HomeSubway deildinSubway deild karlaKristinn tók völdin í Ljónagryfjunni þegar Valur fagnaði deilarmeistaratitlinum: Viðtöl

Kristinn tók völdin í Ljónagryfjunni þegar Valur fagnaði deilarmeistaratitlinum: Viðtöl

Valsmenn léttir í lundu börðu sér leið að sigri og fögnuðu deildarmeistaratitlinum í Ljónagryfjunni í kvöld með risaleik frá Kristni Pálssyni. Lokatölur 106-114 í Ljónagryfjunni þar sem Kristinn skoraði 41 stig og var með 11 fráköst. Einhver hraustlegasta tvenna tímabilsins til þessa. Með sigrinum í Njarðvík í kvöld er ljóst að Valur mætir Hetti í úrslitakeppninni og Njarðvík mætir Þór Þorlákshöfn.

Ekki þarf að fjölyrða um hver var besti maður vallarins en Kristinn með 41 stig og 11 fráköst setti niður 7 af 14 þristum sínum í leiknum og sumir þeirra voru nokkuð skrautlegir.

Njarðvík leiddi 19-18 eftir fyrsta en í öðrum leikhluta ákváðu Valsmenn að láta 38 stigum rigna yfir heimamenn á 10 mínútum og leiddu því 45-56 í hálfleik. Í fyrri hálfleik hitnaði vel í kolunum og heimamenn allt annað en sáttir með T-villu á Dwayne fyrir leikaraskap og í kjölfarið fylgdi svo önnur T-villa á bekkinn fyrir mótmæli.

Heimamenn komu grimmir inn í þriðja leikhluta og náðu forystunni á nýjan leik og leiddu 78-76 þar sem þeir settu 33 stig í þriðja leikhluta. Í fjórða jafnaði Tamulis fyrir Val í 95-95 af vítalínunni þegar sex sekúndur lifðu leiks. Njarðvík átti síðustu sóknina þar sem þeir komu af tveimur skotum frá Chaz og Maciej en boltinn vildi ekki niður og því varð að framlengja.

Eins og mörgum er kunnugt er Kristinn Pálsson borinn og barnfæddur Njarðvíkingur og því öllum hnútum kunnugur í Ljónagryfjunni. Hann tók yfir þessar fimm mínútur leiksins, setti upp skotsýningu og leiddi Val til sigurs þar sem Hlíðarendapiltar fengu svo deildarmeistaratitilinn afhentan í leikslok.

Kristinn Pálsson lauk leik með 41 stig og 11 fráköst en næstur honum í Valsliðinu var Badmus með 19 stig og Kristófer Acox hótaði þrennu með 17 stig, 10 fráköst og 8 stoðsendingar. Hjá Njarðvík var Dwayne Lautier-Ounleye stigahæstur með 31 stig, 6 stoðsendingar og 6 fráköst og næstur þar í röðinni var svo Þorvaldur Orri með 19 stig.

Næst á dagskrá er því úrslitakeppnin þar sem Valur mætir Hetti og Njarðvík mætir Þór Þorlákshöfn.

Tölfræði leiksins

Fréttir
- Auglýsing -