spot_img
HomeFréttirKristinn Óskarsson: Erum öll í sama liðinu

Kristinn Óskarsson: Erum öll í sama liðinu

14:57

{mosimage}

 

 

Körfuknattleiksdómarinn Kristinn Óskarsson varð á dögunum leikjahæsti dómarinn í úrvalsdeild frá upphafi er hann dæmdi sinn 433. leik þegar Hamar/Selfoss tók á móti Grindavík fyrir skemmstu. Kristinn Albertsson dæmdi á ferli sínum 432 leiki og í þriðja sæti er Leifur Garðarsson sem dæmdi 389 leiki. Í þessari talningu er einungis átt við leiki á hefðbundnu tímabili, ekki úrslitakeppni. Með hverjum leik sem líður heldur Kristinn áfram að hlaða ofan á metið sitt en Karfan.is setti sig í samband við methafann og ræddu aðeins við hann um dómgæslustörfin í gegnum tíðina.

 

fManstu eftir fyrsta leiknum?Segðu aðeins frá honum

Fyrsti leikurinn minn í Úrvalsdeild var í Njarðvík 23. október 1988, ég var þá 19 ára gamall. Valur Ingimundarson var á þessum árum helsta stjarnan í íslenskum körfuknattleik og hafði spilað með Njarðvík alla tíð. Þarna um haustið hafði hann gengið til liðs við Tindastól og var að leika sinn fyrsta leik gegn Njarðvík í Ljónagryfjunni, því var mikil eftirvænting eftir leiknum. Meðdómari minn og lærimeistari var Jón Otti sem reyndist mér afskaplega vel í upphafi míns ferils, rólegur og með mikinn leikskilning.Á þessum árum voru erlendir leikmenn bannaðir og því risu íslenskar stjörnur upp hver af annarri. Hjá Tindastóli lék ungur og efnilegur leikmaður sem enn í dag er með hæsta meðalskor íslensks leikmanns á ferlinum, Eyjólfur Sverrisson, sem seinna varð stjarna í fótbolta og núverandi Landsliðseinvaldur í þeirri grein. Eyjólfur skoraði 14 stig í leiknum og Valur 16. 

Lið UMFN var gríðarsterkt á þessum árum og Teitur Örlygsson tók svo sannarlega við af Val sem kyndilberi og leiðtogi liðsins. Teitur fór á kostum í leiknum og skoraði 34 stig.  Annars var leikurinn ekki sérlega spennandi, til þess voru yfirburðir UMFN of miklir, en leikurinn endaði 99-63.  Ég skemmti mér konunglega í leiknum og Jón Otti peppaði mig mikið upp og ég fór glaður heim.

Eftirminnilegir félagar í dómarastéttinni

Ég hef verið afskaplega lánsamur að eignast marga vini og kunningja í gegnum dómgæsluna, bæði hérna heima og eins út um alla Evrópu. Dómarahópurinn hefur verið mjög samheldinn í gegnum tíðina og margt brallað. Ég nefni sérstaklega Jón Otta sem mann sem ég lít mjög upp til. Á sinni dómaratíð hafði hann einstakt lag á að finna góðar lausnir og jafnaðargeð hans með eindæmum. Hópurinn sem hóf dómgæslu um svipað leiti og ég lagði grunninn að nútíma starfsháttum í dómgæslu á Íslandi og ég er hreykinn af því að vera einn þeirra. Þá hafa dómarar af Suðurnesjum alltaf haldið miklum vinskap og það hefur styrkt mig, allt tómir snillingar.

{mosimage}

Eftirminnileg atvik í öllum þessum leikjum?

Ég er ekki séstaklega góður í að rifja upp söguna og held mig mest í núinu. Vissulega hefur margt drifið á dagana. Það var mjög gaman að dæma fjórframlengdan leik í Borgarnesi með Einari vini mínum Einarssyni. Það var líka sérstök upplifun að dæma leik á Ísafirði þegar Grindavík komst þangað með fjóra leikmenn, en höfðu samt sigur. Marel Guðlaugsson fékk fjórar villur í fyrri hálfleik og spilaði vörnina í seinni hálfleik eins og keila! Síðasti leikur situr samt sterkast í minningunni! 

Eftirminnilegir leikmenn

Á þessum tíma hafa leikmenn komið og farið. Flestir eiga það sammerkt að hafa unun og gleði af að spila leikinn. Því sér maður margar jákvæðar hliðar á þeim. Ég hef alltaf haft mest gaman af keppnismönnum sem sýna tilfinningar sínar í meðbyr og mótlæti en sína samt íþróttamannslega framkomu. Sá leikmaður sem mér hefur þó mest gaman að dæma hjá er Teitur Örlygsson, frábær körfuboltamaður (er hann ekki örugglega hættur?).  Margir aðrir eru eftirminnilegir, sérstaklega kanarnir sem komu fyrst eftir að banninu var aflétt árið 1990

Hvernig hefur umgjörð körfubolta á Íslandi breyst með tímanum?

Karfan hefur breyst mikið. Leikmenn eru betri en áður og leikurinn orðinn mun harðari.  Fjöldi erlendra leikmanna hefur aukið breiddina og gert fleirri lið samkeppnishæf en því miður virðist það ekki auka áhugann á íþróttinni. Kröfur um fagmennsku eru að aukast á öllum stigum þjóðlífsins og einnig í íþróttum. Karfan þarf að gera betur, með markaðssetningu og utanumhald um umgjörð leikja. Það þarf að komast uppá næsta plan.  Okkur hefur ekkert farið fram í þessum þáttum frá því að ég byrjaði.

Eitthvað að lokum?

Karfan er stórkostleg íþrótt og við sem erum í hreyfingunni þurfum að standa betur saman til að efla framgang leiksins. Hin ýmsu lið, KKÍ, stjórnarmenn, þjálfarar, leikmenn og dómarar eru öll í sama liðinu þegar á reynir. Þessu gleymum við stundum. Ég vil minna á að enginn leikur verður betri en dómgæslan. Því þarf að hlúa að dómurum á öllum stigum og stefna að því að allir leikir allra flokka og beggja kynja séu dæmdir af dómurum með tilskilin réttindi og í búningi. Ekkert minna dugir.
 

Viðtal – Rúnar Birgir Gíslason – [email protected] 

 Myndir: Víkurfréttir – www.vf.is

Fréttir
- Auglýsing -