spot_img
HomeFréttirKristinn fyrsti aðaldómarinn í þriggja dómara kerfinu

Kristinn fyrsti aðaldómarinn í þriggja dómara kerfinu

17:30 

{mosimage}

(Kristinn Óskarsson) 

Körfuknattleiksdómarinn Kristinn Óskarsson er staddur í Frakklandi um þessar mundir þar sem hann mun í kvöld dæma viðureign USO Mondeville og Dynamo Moskow í Euroleague kvenna. Í gærkvöldi dæmdi hann svo leik BCM Gravelines Dunkerque frá Frakklandi og KK Zagreb frá Króatíu. Með dómgæslunni í leiknum í gær varð Kristinn fyrsti íslenski körfuknattleiksdómarinn til þess að vera aðaldómari í þriggja dómarakerfi í Evrópukeppni félagsliða. Hér á Íslandi er tveggja dómara kerfi við lýði. Frá þessu er greint á www.vf.is  

,,Við Sigmundur Már Herbertsson höfum báðir verið aðaldómarar hjá yngri landsliðum í þriggja dómara kerfi en þetta er annað,” sagði Kristinn í samtali við Víkurfréttir fyrr í dag. Hann hefur áður dæmt í báðum þessum íþróttahúsum, þar sem hann dæmdi í gær og þar sem hann mun dæma í kvöld og kvaðst hann mjög spenntur fyrir leik kvöldsins.  

,,Leikurinn í kvöld er afar áhugaverður. Frönsk kvennalið eru gífurlega sterk og stöndug og kvennakarfan er vinsæl hér í landi. Rússneska liðið er líka sterkt svo ég býst við hörku leik. Ég sem gamall kvenna- og stelpnaþjálfari hef afar gaman af kvennakörfu og gaman að því að fá tækifæri að sjá besta körfuboltann í Evrópu,” sagði Kristinn. 

Hvað þýðir það að vera aðaldómari í þriggja dómara kerfinu?

,,Flest lönd Evrópu hafa tekið upp þriggja dómara kerfið eins og FIBA hefur gert. Við höfum aðeins setið eftir í þessu tilliti og því mjög jákvætt að FIBA skuli ekki nota það gegn okkur. Inni á vellinum eftir að leikur er hafinn eru dómararnir allir jafnir. Út á við kemur aðaldómarinn fram fyrir hönd hópsins og tekur endanlegar ákvarðandir ef upp koma vafaatriði. Aðaldómari ber ábyrgð á því að slípa dómarana saman fyrir leik og stýrir fundi fyrir leik þar sem línurnar eru lagðar. Þriggja dómara kerfið er talsvert frábrugðið því að hafa tvo dómara þó leikurinn sé sá sami.” 

Sérð þú að þriggja dómara kerfið verið tekið í notkun í íslensku deildunum?

,,Ekki að öllu leyti. Til þess höfum við hvorki fjármuni né mannskap en þessi verkefni eru til bóta og KKÍ verður að finna leið til að þjálfa A dómarana í þessu til þess að erfiðustu og mikilvægustu leikirnir verði dæmdir af þremur dómurum. Eins verðum við FIBA dómararnir að dæma reglulega í þessu kerfi til að vera samkeppnishæfir. Það þarf um 30 leiki til þess að læra að dæma í kerfinu og 50-100 til viðbótar til þess að verða góður í því. Það er ekki nóg að gera þetta í skorpum heldur þurfum við að vinna jafnt og þétt,” svaraði Kristinn sem sér ekki fram á að dæma mikið meira á erlendri grundu þessa leiktíðina sökum anna. 

,,Það er nóg að gera. Ég veit ekki hvort ég get dæmt fleiri leiki í vetur og þá er ég að tala um Evrópuleiki. Ég er í MBA námi við Háskóla Íslands en held áfram að dæma heima,” sagði Kristinn sem verður í eldlínunni í Frakklandi í kvöld. 

Kristinn sagði einnig nýverið stöðu sinni lausri sem formaður Körfuknattleiksdómarafélags Íslands sökum anna og Lárus Ingi Magnússon tók við honum í því embætti. 

www.vf.is

Fréttir
- Auglýsing -