spot_img
HomeFréttirKristinn Friðriksson „Þetta er ekki Kórónaveira sem stökkbreytir sér milli ára“

Kristinn Friðriksson „Þetta er ekki Kórónaveira sem stökkbreytir sér milli ára“

Kristinn Friðriksson er einn af sérfræðingunum í verðlaunaþættinum Domino´s Körfuboltakvöld. Þar fer hann á kostum líkt og hann gerði sem leikmaður hér í „den“ – en Kristinn er án vafa ein allra besta – ef ekki sú besta – skytta Íslandssögunnar. Karfan átti afar skemmtilegt samtal við kappann.

Kristinn í leik með sigursælu liði Keflavíkur

Hvaða lið koma með til að slást um deildarmeistaratitilinn í vetur og hvaða lið munu berjast fyrir tilvist sinni í deildinni, og af hverju?

„KR, Keflavík, Njarðvík, ÍR, Grindavík, Valur og Tindastóll geta öll unnið deildarkeppnina, en Stjarnan er samt líklegust að mínu mati. Stjarnan hefur ekki tapað sínum takti milli ára og fengið grjótharða skyttu til sín sem og sænska ofurhetju til þess að gera liðið enn beittara. Ekki skemmir að bæta einum ellismelli á svo þroskaðan líkama sem liðið er í formi Inga Þórs. Á herðum þess verður hinsvegar mikil vigt, þá meina ég fyrir utan Inga Þór. Núna þarf liðið, ólíkt síðustu árum, að afgreiða fleiri álíka sterk lið í deildarkeppni. Sjö önnur slík eru rífandi kjaft og með mannskap til að bakka upp ruslið sem upp úr honum kemur; þetta er pressa sem Stjarnan hefur ekki áður þurft að horfast í augu við. Stjörnuliðið straujaði flest lið í deildarkeppni síðustu ár eins og Hemmi Hauks sýna skyrtu áður en hann fer út í Melabúðinni að kaupa sér forsoðna lifrapylsu. Ég held þó að liðið sé í rétta stakknum og átti sig á mikilvægi heimavallar og verði deildarmeistari,“ segir Kristinn og heldur áfram:

„Eins og landsbyggðin er nú varkár þegar kemur að heimi hinna ósýnilegu þá óttast ég að Þór Akureyri og Höttur munu samt falla fyrir fagurgala falldraugsins. Ekki það að liðin sjálf séu mjög föl ásýndar, heldur tel ég að öll hin liðin séu nægilega sterk og með reynsluna til þess að halda sér uppi. Haukar og Þór Þorlákshöfn eru þau lið sem munu dansa línudansinn en þá með öryggislínuna þannig að áhorfandinn veit að ekkert hræðilegt muni gerast. Það þarf mun meira en loftslagsbreytingar til að veturinn fyrir norðan og austan verði ekki langur og kaldur.“

Kanaígildin líta ágætlega út

En hvað segir Kristinn um deildina nú – er hún svipuð að gæðum og undanfarin ár, mögulega betri eða jafnvel verri? Það stendur ekki á svörum hjá Kristni frekar en fyrri daginn.

„Deildin verður alltaf svipuð að gæðum og þeim nokkrum árum sem undan komu, það er eðli þróunarinnar; hún er of hæg í þessu sem og flestu öðru til að merkja mælanlegan mun milli ára; þetta eru alltaf sömu breyturnar í menginu, með öðrum nöfnum. Þetta er ekki Kórónaveira sem stökkbreytir sér milli ára í eitthvað allt annað en hún var fyrir ári. Svona spurningar eru fyrir áhugamanninn að rífast um þangað til kýrnar koma heim og skemmtilegar sem slíkar. Inngangspunktarnir fyrir mig í þessa umræðu eru erlendu leikmenn liðanna og hvort íslenskir lykilmenn hafi flutt sig milli liða og hvernig þetta hefur áhrif á skemmtanagildið.

Varðandi fyrri punktinn þá voru Evrópumennirnir frábærir í fyrra og líta einnig vel út í ár, enda margir þeir sömu. Kanaígildin líta einnig ágætlega út en enginn “leikbreytir” svo ég noti þetta andstyggilega orð. Þetta er jákvætt. Svo hafa sterkir íslenskir leikmenn fært sig milli liða og aukið á breiddina í deildina – til dæmis að Sigurður Þorsteinsson fór í Hött, og svo auðvitað þetta KR-Vals swingpartý sem var haldið með pompi og prakt. Þetta er líka jákvætt,“ segir Kristinn og bætir við: „Lélegri liðin munu halda áfram að stela örfáum stigum og stríða þeim betri og þetta er jákvæð þróun fyrir alla.

En stutta svarið mitt er svona: Get ekki svarað varðandi gæði spilamennskunnar en deildin verður virkilega skemmtileg á að horfa í vetur – svo lengi sem liðin fá að spila leikina.“

Við munum aldrei upplifa nokkurn stöðugleika

Þá að landsliðinu – Ísland hefur farið á tvö stórmót og leikmenn eins og Martin Hermannsson og Tryggvi Snær Hlinason eru bara að verða betri. Telur Kristinn að við séum í góðum málum með landsliðið?

„Ekki gleyma Hauk Helga, Elvari og fleiri góðum leikmönnum. Við erum vel stödd held ég, en ég býst ekki við að keflið fari á milli „gamla“ liðsins og þess nýja án þess að hið nýja kíki niður í dalsbotninn. En núna er tími uppbyggingar og eftir smá dýfu finnur liðið aftur gírinn sem kom okkur á stórmótin og ég vona að okkur takist að skapa reglubundið jójó í þessu næstu áratugi svo við þurfum ekki að bíða svona lengi eins og síðast.

Við munum aldrei upplifa nokkurn stöðugleika í þessu – svona smávaxin þjóð – og því mikilvægast að koma reglulega upp til að anda. Við þurfum að njóta góðu tímabilanna og styðja við bakið á liðinu í gegnum þrautagöngurnar og vera raunsæ í okkar væntingum til liðsins. Það kæmi mér núll á óvart ef þessi kjarni kemur okkur á annað Evrópumót, en á sama tíma kæmi það mér heldur ekkert á óvart ef við kæmumst ekki næstu tíu eða tuttugu árin. Slík er samkeppnin í Evrópu og uppgangurinn hjá öðrum þjóðum.“

Aðeins að þér – þú átt að baki þjálfaraferil – kitlar það ekkert að snúa aftur í þann bransa?

„Ég hef nákvæmlega engan áhuga á því – mögulega ögn minni en engan. Það er starf unga fólksins; fólks með neista og nennu til að til að nema nýjungar og nýbreytni í nálgun sinni og notkun við netboltafræðin.“

„Bara að lokum, Kristinn, ég er forvitinn um það hvað þú gerir annað en að vera sérfræðingur í settinu hjá Kjartani Atla, svona dagsdaglega.

„Ég ráfa um í kúptri hvelfingu eigin anda, engist þar um í óbærilegri og litlausri biðstofu næsta þáttar.“

Viðtal / Svanur Már Snorrason

Fréttir
- Auglýsing -