Kristinn Marinósson lék ekki með Haukum í sigrinum gegn Keflavík í kvöld. Kristinn varð fyrir því óláni á dögunum að lenda í aftanákeyrslu og hlaut hann áverka í slysinu. Kristinn fylgdist því með félögum sínum í Haukum af tréverkinu þennan leikinn.
Emil Örn Sigurðarson aðstoðarþjálfari Hauka sagði í snörpu spjalli við Karfan.is að Kristinn stefndi að því að komast aftur í gang eftir helgi en Haukar yrðu að bíða og sjá hvernig framhaldið yrði.
Kristinn hefur átt flott tímabil með Haukum til þessa með 9,1 stig og 5,2 fráköst að meðaltali í leik.
Mynd úr safni/ Axel Finnur



