spot_img
HomeFréttirKraftröðun Karfan.is - Meistararnir í vandræðum?

Kraftröðun Karfan.is – Meistararnir í vandræðum?

Þá eru um það bil 10 leikir eftir á hvert lið í NBA-deildinni og þá er ekki úr vegi að kanna hvar liðin standa fyrir lokaátökin, bestu liðin (nema Houston) farin að hvíla menn og baráttan um síðustu úrslitakeppnissætin í algleymingi. Ég minni á að Kraftröðunin fer ekki einungis eftir stöðunni í deildinni heldur ýmsum öðrum þáttum, bæði tölfræðilegum þáttum og svo aðallega geðþótta undirritaðs.

 

 

 

  1. Golden State Warriors (1 í sókn 113,0 og 1 í vörn 101,0)

Liðsmenn Warriors eru búnir að vera á fljúgandi siglingu undanfarið og eru klárir hér í toppsætinu, brotthvarf Kevin Durant vegna meiðsla hefur neytt þá til þess að spila sama körfubolta og síðustu tímabil, sem hefur venjulega skilað þeim um 80% vinningshlutfalli. Það er líka þannig núna. Steph Curry er farinn að líkjast sjálfum sér meira og meira og er aftur farinn að taka hitaþolsþrista neðan úr bæ. Vandamál liðsins eru ekki sjáanleg í augnablikinu, þeir eru 7-3 í síðustu 10 leikjum og líta vel út, bestir í vörn og bestir í sókn. Það verður þó fróðlegt að sjá hvað endurkoma Durant gerir fyrir liðið.

 

  1. Houston Rockets (2 í sókn 112,5 og 16 í vörn 105,9)

Veislan í Houston heldur áfram. Verðmætasti leikmaður deildarinnar að mati undirritaðs er að spila glimrandi bolta og heldur sóknarvélinni sem að Rockets eru vel við efnið. Lou Williams fellur eins og flís við rass og Eric Gordon og Ryan Anderson eru enn sæmilega heilir og hafa spilað virkilega vel. Það er mikið tilhlökkunarefni fyrir aðdáendur NBA deildarinnar að sjá hvað þetta lið gerir í úrslitakeppninni, þeir geta skorað stig á hvern sem er en er það nóg?

 

  1. San Antonio Spurs (6 í sókn 109,5 og 1 í vörn 101,0)

Annað ár, aftur 50 sigrar. Spurs maskínan mallar og mallar. Besta varnarlið deildarinnar með alvöru stórstjörnu á báðum endum vallarins í Kawhi Leonard sem hefur verið að spila eins og engill í vetur. Þetta San Antonio lið er stútfullt af reynslumiklum leikmönnum sem einfaldlega þekkja kerfin sem að Popovich vill spila, og þeir keyra þessi kerfi af mikilli nákvæmni sem skilar þeim oftar en ekki góðum skotum. Hvert framhaldið verður veit ég ekki, en það er ljóst að það hefur enginn gaman að því að fara í langa seríu gegn Spurs.

 

  1. Boston Celtics (8 í sókn 108,5 og 10 í vörn 105,4)

Piltarnir frá Baunaborg eru í fínum málum og bara einum leik á eftir Cleveland Cavaliers sem myndi skila þeim efsta sæti austurdeildarinnar. Hinn lágvaxni og yfirlýsingaglaði Isaiah Thomas heldur áfram að keyra sína menn í rétta átt og er að setja rétt tæp 30 stig í leik. Boston menn eru 8-2 í síðustu 10 leikjum sem er það besta sem deildin hefur upp á að bjóða. Kannski er ég að berja í sama vegginn aftur, en ég bara skil ekki hvers vegna liðið náði sér ekki í aðeins meiri hjálp áður en að leikmannamarkaðurinn lokaði, þeir eru í dauðafæri.

 

  1. Cleveland Cavaliers (3 í sókn 111,4 og 23 í vörn 108,1)

Meistarar Cleveland Cavaliers hanga enn á efsta sæti austurdeildarinnar en Boston eru heldur betur að narta í hælana á þeim. Varnarleikur Cleveland hefur verið lélegur í vetur og er það ákveðið áhyggjuefni að vörnin hjá þeim hefur ekkert batnað á síðustu mánuðum. Cavs eru 5-5 í síðustu 10 leikjum og eru við það að missa toppsætið, en ég hef samt engar sérstakar áhyggjur af þeim og fullyrði að þeir verði ennþá að spila í Júní. LeBron James hefur allavega engan áhuga á öðru.

 

  1. Washington Wizards (9 í sókn 108,4 og 19 í vörn 106,1)

Eftir fáránlega byrjun réttu Galdramennirnir heldur betur úr kútnum og gott betur en það og eru öruggir inn í úrslitakeppnina sem virtist fjarlægur draumur eftir 20 leiki. Wizards menn eru að spila flottann körfubolta og munar þá helst um bakvarðaparið John Wall og Bradley Beal sem eru búnir að vera óaðfinnanlegir í 3 mánuði og mynda eitt besta bakvarðapar deildarinnar. Spurningin er aðallega hvort þeim takist að halda Raptors fyrir aftan sig og stefnir í ansi mikla baráttu það sem eftir lifir tímabilsins en það munar einungis 1 leik á liðunum í töflunni. Wizards eru 6-4 í síðustu 10 og þurfa helst að bæta ofan á það til að halda sætinu.

 

  1. Toronto Raptors (5 í sókn 109,7 og 8 í vörn 104,9)

Eftir talsvert bras og lélega spilamennsku þegar að Kyle Lowry meiddist hafa Raptors liðar rankað við sér og eru búnir að finna formúluna aftur. DeMar DeRozan hefur stigið upp og er að setja langa tvista eins og enginn sé morgundagurinn og hefur leitt liðið til sigurs í 7 af síðustu 10 leikjum. Toronto spila sama rútíneraða körfuboltann og þeir hafa gert undanfarin ár og hefur þessi stöðugleiki vafalaust hjálpað til í umrótinu eftir meiðsli Lowry. Sérstaklega hefur verið gaman að fylgjast með hinum nautsterka PJ Tucker, en hann hefur fært vörn liðsins á annað plan þegar hann spilar.

 

  1. Oklahoma City Thunder (15 í sókn 105,4 og 12 í vörn 105,5)

Oklahoma Westbrooks eru að spila fínan bolta á besta tíma og eru 6-4 í síðustu 10 leikjum. það þarf ekkert endilega að hafa mikil orð um Russell Westbrook, hann hefur spilað eins og andsetinn maður á 100% hraða í heilt tímabil og varla misst úr mínútu, þvílíkur járnkarl. Ef OKC halda áfram að spila svona vel er allt eins líklegt að þeir nái Clippers og geti því sloppið við þrjú bestu liðin í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Vonandi eru þeir með eitthvað uppi í erminni fyrir skákina sem úrslitakeppnin er, kerfið ,,Westbrook keyrir á körfuna" dugar varla í 7 leikja seríum.

 

  1. Memphis Grizzlies (19 í sókn 104,7 og 7 í vörn 104,3)

Grit and Grind er ekki dautt, og David Fizdale hefur fylgt hinu mjög svo sanna spakmæli: ,,það þarf ekki að laga það sem er ekki bilað” og það hefur heldur betur skilað sínu, Marc Gasol er að spila vel, Mike Conley líka og hinn fertugi Vince Carter er enn að troða. (samt í alvörunni, hvað er’ann?) Grábirnirnir eru í harðri baráttu um 6. Sætið í vesturdeildinni eins og staðan er akkúrat núna og þurfa nauðsynlega smá kipp til þess að ná OKC.

 

  1. Miami Heat (17 í sókn 104,9 og 6 í vörn 104,1)

Þrátt fyrir að hafa aðeins misst flugið undanfarna viku þá eru Miami Heat núna komnir í úrslitakeppnissæti. Margir hafa horft á sóknarleikinn og réttilega séð Dion Waiters og Goran Dragic bera liðið uppi sóknarlega, en ástæðan fyrir því að þetta Miami lið er ekki að vesenast á botninum er frábær varnarleikur liðsins og þá sérstaklega Hassan Whiteside. Heat eru með frábært varnarlið og eru enn að finna fjölina sína, ef þeir koma fljúgandi inn í úrslitakeppni get ég ekki séð að það verði öfundsvert hlutverk fyrir efstu liðin að mæta til Flórída.

 

  1. Utah Jazz

Eru ágætlega öruggir í 4. sætinu, þurfa að verða heilir fyrir úrslitakeppni ásamt því að fá Rodney Hood í gang, en hann hefur verið dapur eftir meiðsli.

 

  1. Portland Trail Blazers

Komnir í úrslitakeppnissæti og ætla sér að halda því, Yusuf Nurkic aldeilis að bjarga tímabilinu hjá þeim. Lillard samt aðalmaðurinn.

 

  1. Los Angeles Clippers

Clippers eru í tómu rugli, vinna Jazz sannfærandi einn daginn og tapa niður 18 stiga forskoti gegn Kings daginn eftir. Vonandi verður Blake Griffin í lagi eftir aðfarir JJ Barea.

 

  1. Milwaukee Bucks

Gríska viðundrið er ekkert að hætta að koma mér á óvart og meiðslalaus Kris Middleton er frábær, Bucks virðast á leiðinni í úrslitakeppni. Bucks in 6.

 

  1. Denver Nuggets

Jókerinn heldur áfram að heilla, en þeir verða að rífa sig meira upp til þess að taka síðasta sætið í úrslitakeppninni.

 

  1. Atlanta Hawks

Sennilega eitt leiðinlegasta lið deildarinnar, en virðast alltaf stíga aðeins upp þegar að þess þarf. Verð verulega hissa ef þeir detta niður fyrir 8. Sætið.

 

  1. Indiana Pacers

Ákveðið vonbrigðatímabil fyrir vel mannað Pacers lið, Paul George virðist samt vera kominn í gírinn, það veit á gott.

 

  1. New Orleans Pelicans

Þegar að maður skilur ekki alveg hvers vegna þetta lið tapar svona mikið þá er bara eitt ráð: Blame it on the Boogie.

 

  1. Dallas Mavericks

Meira að segja töfrabrögðin hans Rick Carlisle duga ekki fyrir Dallas í vetur, vonandi tekur Dirk eitt tímabil enn.

 

  1. Chicago Bulls

Skiptu frá sér Taj Gibson og Doug McDermott fyrir Cameron Payne, senda svo Payne beint í D-league. Glæsilegt alveg.

 

  1. Charlotte Hornets

Vonin um sæti í úrslitakeppni er ekki alveg farin, en það er lítið eftir. Eru með 3. lélegustu skotnýtingu deildarinnar. Það dugar ekki.

 

  1. Detroit Pistons

Það er ekki bjart yfir Detroit, 3ðji hæsti launapakki deildarinnar, Reggie Jackson í fílu og Andre Drummond að skjóta 39% úr vítum.

 

  1. Sacramento Kings

Fínn sigur gegn Clippers í gær felur ekki að það er næstum ekkert að frétta þarna í Sacramento. Eða jú, Buddy Hield er aðeins að vakna.

 

  1. Minnesota Timberwolves

Ylfingarnar þurfa eitt tímabil enn til þess að stimpla sig inn, voru einfaldlega ekki tilbúnir í ár. Thibs þarf meiri tíma til þess að kenna KAT varnarleik.

 

  1. New York Knicks

,,Meiri þríhyrning takk”, sagði enginn leikmaður Knicks, aldrei. Phil Jackson og Jeff Hornacek segjast þá bara ætla að spila extra mikinn þríhyrning.

 

  1. Philadelphia 76ers

Ungliðarnir í Philly eru að eiga ágætis tímabil og verða vonandi enn sterkari á næsta ári með Ben Simmons og Joel Embiid heila. Dario Saric vinnur sennilega nýliði ársins verðskuldað.

 

  1. Orlando Magic

Er Mario Hezonja bara power forward eftir allt saman? Hvaða stöðu spilar Aaron Gordon þá? Hver er dularfulli maðurinn?

 

  1. Phoenix Suns

70 stig fyrir Devin Booker, L fyrir Suns og allir eru glaðir. Fallegt.

 

  1. Brooklyn Nets

Nú eru bara tvö heil tímabil þangað til Brooklyn getur nýtt valréttinn sinn til þess að ná sér í stórann mann sem getur tekið meira en 7 fráköst í leik.

 

  1. Los Angeles Lakers

Finnst þér gaman að horfa á unga leikmenn keppast um að taka erfið skot og spila lélega vörn? Þá er Los Angeles Lakers liðið fyrir þig.

 

Fréttir
- Auglýsing -