spot_img
HomeFréttirKraftröðun Karfan.is - Línur að skýrast

Kraftröðun Karfan.is – Línur að skýrast

 

Þá fer að líða að jólum og línurnar heldur betur farnar að skýrast, þá er einmitt tilvalið að smella í þriðju kraftröðun (e. power rankings) vetrarins hér á Karfan.is. Ég minni á að kraftröðunin fer ekki bara eftir stöðunni í deildinni heldur ýmsum öðrum þáttum, bæði tölfræðilegum þáttum og svo aðallega geðþótta undirritaðs. 

 

  1. Golden State Warriors (24-4) Staða síðast: 3
    Eftir örlítið ströggl í byrjun tímabilsins hafa Warriorsmenn fundið fjölina sína, þá sérstaklega sóknarlega. Kevin Durant er búinn að vera bestur í vetur en Currry hefur örlítið sest í aftursætið, ég myndi samt ekki reikna með því að hann verði þar alltof lengi. Á einhvern ótrúlegan hátt hefur Javale McGee komið gríðarlega vel inn í liðið og hefur spilað eins og engill. Ég hef ekki nokkrar áhyggjur af því að Warriors verði ekki með besta árangurinn þegar að yfir líkur.

 

  1. San Antonio Spurs (22-5) Staða síðast: 6
    Það er eintómur rósadans í gangi hjá San Antonio. Héltu upp á Tim Duncan daginn fyrir stuttu og allir voru glaðir og hamingjusamir. Þetta sést líka á vellinum, þar sem liðið er eins og vel smurð vél. San Antonio er eins og venjulega eitt af bestu varnarliðum deildarinnar, sem og flottir sóknarlega. Ég hef alltaf gaman af því að horfa á San Antonio, boltinn hreyfist gríðarlega hratt og menn þekkja sín hlutverk út í gegn, en það skemmtilegasta er að horfa á þróun Kawhi Leonard sem er orðin alger stjarna á báðum endum vallarins.

 

  1. Cleveland Cavaliers (19-6) Staða síðast: 3
    Ég ætla eiginlega ekki að telja með tapið gegn Memphis þar sem Cleveland settu Love, Irving og James ekki einu sinni um borð í flugvélina, það var bara alvöru orlof í gangi, enginn veikindadagur. Í þeim leikjum sem þessir 3 spila eru Cavs svo gott sem óstöðvandi, sérstaklega í meðalmennskudeildinni sem að austurdeildin hefur því miður verið undanfarin ár. JR Smith hefur reyndar verið frekar dapur, en hann hlýtur að fara að fara úr bolnum, rétta úr sér og ákveða að byrja tímabilið.

 

  1. Houston Rockets (21-7) Staða síðast: 9
    Eldflaugarnar frá Houston hafa verið á svakalegu skriði undanfarið þrátt fyrir gríðarlegt leikjaálag. Endurkoma Patrick Beverley hefur svo sannarlega skipt sköpum og hefur breytt þeim frá skemmtilegu og hröðu liði í alvöru körfuboltalið sem er til alls líklegt í vetur. Liðið varð reyndar fyrir ákveðinni blóðtöku í dag þegar það kom fram að Clint Capela verður frá í 4-6 vikur. Þetta ætti reyndar allt að bjargast þar sem liðið er með James Harden, minn MVP í ár sem virðist ekkert vera að hægja á. Svo má nefna að meiðslapésarnir Anderson og Gordon eru ennþá heilir heilsu og eru að láta rigna þristum.

 

  1. Toronto Raptors (19-8) Staða síðast: 4
    Ég vona að lesendur minni mig á það að skoða hvernig hinir ýmsu spekingar fjölluðu um Toronto Raptors fyrir tímabilið. Þeir eru að gera nákvæmlega sömu hluti og í fyrra og á svipuðu reki hvað varðar sigra og töp, samt virðist þetta koma fólki á óvart. Eins og staðan er í dag getur ekkert annað lið gert tilkall til þess að vera næst besta lið austurdeildarinnar. Tvíeykið DeRozan og Lowry heldur áfram að svínvirka og sóknin hjá Raptors sú besta í deildinni (betri en hjá Warriors). Það er líka sérstaklega skemmtilegt að fylgjast með hinum frábæra Pascal Siakam koma öllum á óvart.

 

  1. Los Angeles Clippers (20-8) Staða síðast: 1
    Litla liðið frá englaborginni byrjaði tímabilið frábærlega áður en tók að halla undan fæti og vörin varð verri, liðið er ennþá topp 5 í bæði vörn og sókn en varnarleikurinn hefur verið til vandræða undanfarið, sér í lagi í lok leikja. Ekki batnaði það nú þegar að þær fregnir bárust í gær að þeirra næst besti leikmaður, Blake Griffin verði frá í um það bil 6 vikur vegna hnéaðgerðar. En Clippers aðdáendur (ef einhverjir eru) ættu ekki að örvænta strax, liðið vann 66% leikja sinna án Griffin í fyrra og get ég lofað lesendum um það bil 60 háum hindrunum frá DeAndre Jordan fyrir Chris Paul í hverjum leik.

 

  1. Utah Jazz (18-10) Staða síðast: 8
    Tónlistarmennirnir frá Salt Lake City eru búnir að finna fjölina sína. Gordan Hayward er að spila vel, Rodney Hood er að spila vel, George Hill er að spila vel og svo er Rudy Gobert að blokka öll skotin og troða svo boltanum hinum megin að vild. Þessi Franski turn er heldur betur að stimpla sig inn undanfarið sem einn allra besti miðherji deildarinnar sem sést best á því að það er sama hvaða stjörnuleikmaður mætir inn í teiginn hjá honum, stór eða lítill, allir fá þeir sömu meðferð frá Rudy – neitun.

 

  1. Memphis Grizzlies (18-11) Staða síðast: 18
    Grábirnirnir halda áfram að sýna að það skiptir ekki endilega máli hverjir spila, svo lengi sem menn treysta kerfinu, spila vörn og Marc Gasol er inni á vellinum. Memphis eru sem stendur í 29. Sæti í sókn og númer 1 í vörn. Stórkemmtilegt að á tímum mikils hraða og þriggja stiga skota þá stendur einn steingervingur eftir og á í fullu tré við hin liðin. Mike Conley er líka mættur aftur, vel fyrir tímann sem ætti að hjálpa þeim í frekar erfiðri törn næsta mánuðinn.

 

  1. Boston Celtics (15-12) Staða síðast: 13
    Margir spáðu Boston Celtics frábæru gengi á þessu tímabili (undirritaður meðtalinn) en tímabilið hefur ekkert endilega verið neinn dans á rósum, eiginlega bara alls ekki og þeim hefur ekki tekist almennilega að skilja sig frá meðalmennskupakkanum í austurdeildinni. Eins og þetta horfir við mér eru Celtics menn aðeins fyrir ofan meðalpakkann og aðeins fyrir neðan Raptors. (Cleveland í öðru sólkerfi). Isaiah Thomas heldur áfram að gera hluti sem maður af hans hæð (og þyngd) ætti ekki að geta gert í þessari trölladeild sem NBA er. Þvílíkur leikmaður.

 

  1. Oklahoma City Thunder (16-12) Staða síðast: 12
    Russ, Russ, Russ. Hvað getur maður sagt meira um Oklahoma liðið, Russell Westbrook er enn með yfir 40% í notkunartölfræði (e. Usage rate) sem segir okkur eiginlega það að hann notar næstum allar sóknir OKC. Það skiptir ekki máli hvort um er að ræða skot, stoðsendingu eða tapaðan bolta, Russ sér um þetta allt. Enda tölfræðin fáránleg, 30,9 stig, 10,5 fráköst og 10,9 stoðsendingar. Westbrook er hins vegar ekki að skjóta nógu vel og ég er á því að hann eigi að vanda skotvalið aðeins og treysta liðsfélögum sínum betur. (eins og sést fjallaði þetta um Russ en ekki liðið Thunder, enda er Russ liðið og liðið er Russ).

 

  1. Indiana Pacers (15-14) Staða síðast: 20
    Paul George virðist vera að finna fjölina sína aftur, Indiana fer ekkert án þess að hann spili eins og það sem hann er. Næst besti leikmaður austurdeildarinnar.

 

  1. Milwaukee Bucks (13-12) Staða síðast: 16
    Tarfarnir eru að spila hörkubolta og eru aldeilis að sína hvað þeir geta, Giannis og Jabari eru í alvörunni að gera Bucks að liði sem ég kveiki á viljandi á league pass.

 

  1. Chicago Bulls (14-13) Staða síðast: 15
    Gjörsamlega niðurlægðu Detroit Pistons í fyrrinótt og eru partur af þessum austurdeildarmiðlungspakka eins og svo mörg önnur lið.

 

  1. New York Knicks (14-13) Staða síðast: 26
    Joakim Noah er með risasamning þar til eftir tímabilið 2019-2020. Hugsið aðeins um það.

 

  1. Charlotte Hornets (15-13) Staða síðast: 7
    Sóknarleikurinn hefur verið skelfilegur undanfarið og lykilleikmenn verið lélegir, Hornets þurfa að passa sig að sogast ekki niður fyrir pakkann.

 

  1. Washington Wizards (12-15) Staða síðast: 25
    Töframennirnir eru heldur betur að rétta úr kútnum og þá sérstaklega Bradley Beal sem er að spila virkilega vel.

 

  1. Atlanta Hawks (14-14) Staða síðast: 5
    Atlanta eru að rífa sig aftur upp eftir dapurt gengi undanfarið, sterkur sigur á OKC í nótt lyfit þeim aðeins.

 

  1. Detroit Pistons. (14-16) Staða síðast: 11
    Það er allt í rugli í MoTown. Reggie Jackson neitar að skjóta og vörnin er engin. Stór töp fyrir Bulls, Wizards og Philly undanfarið eru ekki að hjálpa.

 

  1. Denver Nuggets (12-16) Staða síðast: 22
    Það er annaðhvort í ökkla eða eyra hjá Nuggets, nú er Nurkic kominn í hundakofann. Hver verður næstur?

 

  1. Portland Trail Blazers (13-16) Staða síðast: 10
    Eina ástæða þess að þeir eru inni í úrslitakeppninni er sú að önnur lið í vestrinu eru glötuð, lið sem hefur staðnað sem meðallið. Slæmt.

 

  1. Miami Heat (9-19) Staða síðast: 24
    Hassan Whiteside er að skora bæði innan og utanvallar með hnitmiðuðum móðgunum og tvöföldum tvennum.

 

  1. Orlando Magic (12-17) Staða síðast: 21
    Hvenær ætla þeir að hætta að spila Aaron Gordon fyrir utan? Þetta fer að verða alveg óþolandi.

 

  1. Dallas Mavericks (7-21) Staða síðast: 27
    Ég hélt að þeir væru að lifna aðeins við, kannski eru þeir að því en það gerist ekki fyrr en einhver þarna nennir hitta úr skotum.

 

  1. Minnesota Timberwolves (8-19) Staða síðast: 17
    Ylfingarnir eru áfram í tómum vandræðum, er þessi ungi kjarni eitthvað til þess að halda áfram með?

 

  1. Philadelphia 76ers (7-20) Staða síðast: 30
    Eru að standa sig langt umfram minar væntingar, komnir með 7 sigra og ekki komin áramót.

 

  1. Sacramento Kings (10-17) Staða síðast: 23
    DeMarcus Cousins kominn í stríð við fjölmiðla og allir brjálaðir. Fastir liðir eins og venjulega.

 

  1. Los Angeles Lakers (11-19) Staða síðast: 14
    Engin breidd og erfið meiðsli eru mjög vond blanda, Lakers upfylla bæði þessi skilyrði.

 

  1. New Orleans Pelicans (9-20) Staða síðast: 29
    Það sem ég er spenntastur fyrir hjá Pelicans er barátta Buddy Hield og Et‘wan Moore um mínútur og skot. Það segir mikið um liðið.

 

  1. Phoenix Suns (8-20) Staða síðast: 28
    Vonarstjarna Suns manna, Devin Booker er að skjóta 41% utan af velli og 32% í þriggja stiga skotum, vont.

 

  1. Brooklyn Nets. (7-19) Staða síðast: 19
    Besti leikmaður Nets, hinn vel rúmlega 7 feta hái Brook Lopez tekur 5,4 fráköst í leik. Hvað er það?
Fréttir
- Auglýsing -